Áhugafólk um gönguskíði hefur á undanförnum árum unnið hörðum höndum að því að búa til sómasamlega aðstöðu til að iðka sportið við Reyðarárhnjúk á Reykjaheiði. Grettistaki hefur verið lyft, bæði í sjálfboðavinnu og með stuðningi sveitarfélagsins.

Aija Kotleva er 35 ára Letti sem flutti til Húsavíkur með eiginmanni sínum árið 2009 en þau eiga tvö börn og hafa komið sér vel fyrir í því sögufræga húsi Borgarhóli. Aija er sífellt á ferðinni og vill hafa sem mest fyrir stafni. Hún viðurkennir að fyrst eftir að hún kom til landsins hafi hún átt erfitt með að  finna sér afþreyingu við hæfi sér í lagi af því að hún hafði ekki bíl til umráða og þekkti lítið til á svæðinu.

Svo var hún eitt sinn fyrir tilviljun að tala um gönguskíði í vinnunni og hvað hana hafi alltaf langað til að taka það sport upp aftur; en hún gekk á skíðum sem barn heima í Lettlandi. „þá sagði vinnufélagi minn mér frá svæðinu uppi á Reykjaheiði. Eftir að ég kom þangað í fyrsta sinn, skildi ég ekki af hverju þessi perla væri ekki á allra vitorði, þetta er svo frábært,“ útskýrir hún með glampa í augunum.

Aija vill að það komi skýrt fram að hún sé ekki atvinnumaður í sportinu heldur sé hún að þessu til að hafa gaman af því. Hún hvetur sem flesta til að koma og vera með. „Æfingin skapar meistarann og það þarf ekki að vera alltaf keppni í þessu. Ég var sjálf hálf smeyk þegar ég byrjaði. Ég kunni ekki reglurnar eða hefðirnar í kringum þetta, en komst að því að þetta var nokkuð auðvelt. Ég stundaði þetta reyndar þegar ég var barn en var ekki búin að standa á skíðum síðan þá.“

Aija segist hafa farið rólega af stað í sportið og keypt sér notuð fisher-skíði til að byrja á.  „Ég vissi ekki hvort ég myndi endast í þessu en svo fannst mér þetta svo gaman. Ég brenn fyrir það að virkja sem flesta í þessu sporti og segja við fólk að vera óhrætt við að prófa. Það er enginn að horfa á og dæma og þetta er engin keppni. Ég vil fá sem flesta upp eftir að stunda góða hreyfingur og njóta náttúrinnar enda er útsýnið eins og það best getur orðið, virkilega fallegt. Þetta er líka svo góður félagsskapur í kringum þetta.“

Aija leggur áherslu á að skíðasvæðið sé ekki nema smá spölur bí, 10 mínútna akstur eða svo. „Svo eru starfsmenn Norðurþings orðnir virkilega góðir í að búa til brautir,“ útskýrir hún.

„Ég veit að það getur verið erfitt að standa upp úr sófanum, sérstaklega yfir dimmasta veturinn, en svo þegar maður lætur verða af því þá er það algjörlega þess virði,“ segir hún og bendir á að þó vindar blási niðri í bæ þá geti verið blankalogn uppi á heiði. „En reyndar getur það verið öfugt líka,“ játar hún.

Aija segir að starfsmenn Norðurþings séu að verða mjöggóðir í að troða brautir.

Aðspurð telur Aija að fólki sé sífellt að fjölga sem leggur stund á skíðagönguna. „Mér finnst sportið vera orðið mun vinsælla en þegar ég var að byrja fyrir örfáum árum. Svo er alltaf ákveðinn kjarni sem mætir alltaf. Frá mars og fram í maí jafnvel er oft mjög góð mæting, þegar daginn er tekinn að lengja.“

Hún segir að það sé ágætis aðstaða á svæðinu við Reyðarárhnjúk, skíðaskáli, rafmagn og rennandi vatn en hún segist vilja sjá sveitarfélagið fjárfesta í snjóblástursvél en játar að hún hafi ekki hugmynd um hvað slíkt kostar. „Ég veit bara að Ólafsfjörður er með tvær svona vélar, af hverju getur Norðurþing ekki átt eina?“

Nú er Aija komin á fullt í undirbúning fyrir Orkugönguna sem haldin er á hverju ári en hún hefur tekið að sér utanum hald fyrir hana. Og hún endurtekur að íbúar Húsavíkur og nágrennis verði að vera duglegri að nota þessa paradís. „Einnig ef skíðalyftan verður færð úr Skálamel og gengið frá henni þarna í hnjúknum þá er þetta ekki aðeins lífsgæðaaukning fyrir íbúana í sveitarfélaginu. Þetta er einnig frábært tækifæri til að lokka fleiri ferðamenn inn á svæðið yfir veturinn. Að skíða í tungsljósi er dásamleg upplifun,- eins og ævintýri. Svo ég tali nú ekki um þegar norðurljósin dansa um himinninn,“ segir þessi orkumikla kona úr Borgarhóli.