Atli Barkarsson verður 18 ára efir fáeina daga en hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik í fótbolta með Völsungi sumarið 2016. Hann leikur í dag með Norwich City sem er í næst efstu deild á Englandi en hann skrifaði undir atvinnumannasamning við félagið síðatsliðið sumar. Atli hefur verið að æfa og leika bæði með U18 ára liðinu og U23.

Blaðamaður Víkurblaðsins sló á þráðinn til Atla á dögunum og ræddi við hann um lífið ytra og framtíðina í boltanum. Það fór ekki fram hjá undirrituðum að þarna er ungur maður á ferð sem veit hvað hann vill og hefur það sem til þarf til að ná þangað sem hann ætlar sér. Metnaðurinn skein í gegn í rödd hans og fasi.

Atli segir að þó að atvinnumennskdraumurinn hafi blundað í sér alla tíð þá hafi boltinn fyrst farið að rúlla þegar hann fór í sitt fyrst verkefni með U17 landsliði Íslands til Skotlands. „Þar voru umboðsmenn og útsendarar frá félögum víða að. Útsendarar frá Norwich sáu mig strax og spjölluðu við mömmu og pabba. Þá byrjaði þetta allt saman.

Stórt stökk frá íslenska boltanum

Norwich City leikur í Championship deildinni á Englandi sem er sú næst sterkasta. En sem stendur er liðið í harðri baráttu um að tryggja sér sæti í úrvaldsdeild á næsta tímabili. „Þetta er frekar stórt batterý. Ég er ennþá í akademíunni sem er bara unglingalið en það er í efstu deild í þessum aldursflokki og mjög hátt skrifað á Englandi. Við erum að spila við Tottenham og Chelsea og öll þessi topp lið. Þannig að akademían er í hæsta gæðaflokki. Auk þess er Norwich mögulega á leið núna upp í Premier league, þá verður þetta enn stærra,“ útskýrir Atli.

Það geta verið mikil viðbrigði fyrir óharðnaða unglinga að fara í nýtt umhverfi í nýju landi og berjast þar við fjölda jafnaldra sinna um plássin meðal þeirra bestu. Atli er kominn í umhverfi þar sem agi og fagmennska eru í fyrirrúmi og hann virðist pluma sig vel. „Mestu viðbrigðin eru að þetta verður hálfpartinn eins og vinnan manns. Ég er farinn að vera á æfingasvæðinu allan daginn nánast, og tek tvær æfingar á dag. Hraðinn er miklu meiri og pressan um að standa sig. Það er alltaf verið að fylgjast með manni í öllu sem maður gerir. Maður þarf alltaf að vera sanna sig upp á nýtt á hverjum degi. Ef maður tekur því rólega einn daginn þá er strax tekið eftir því,“ segir hann.

Atli er 17 ára en á afmæli á morgun en hann hefur notið þess að fjölskylda hans flutti með honum út til að standa þétt við bakið á honum fyrsta árið. „Mamma, pabbi og litla systir mín fluttu með út en þau eru að flytja heim aftur eftir þetta tímabil. Ég kem því til með að búa einn á næsta tímabili. Það er mjög mikilvægt að hafa fengið þau með sér hingað út. Ég held að mér væri ekki búið að ganga svona vel og ekki getað tekist á við allt sem hefur gengið á einn míns liðs. Foreldrar mínir eru alltaf búnir að styðja mig í öllu og hjálpa mér mikið,“ útskýrir Atli en foreldrar hans eru Börkur Emilsson og Erna Björnsdóttir.

Mikilvægt að hugarfarið sé í lagi

Atli segir að það sé ekki endilega svo mikill munur tæknilega á unglingaliðum og aðalliðum. „Þetta snýst aðallega um hvernig maður er í hausnum. Hvað maður er tilbúinn til að leggja á sig aukalega til þess að ná skrefinu upp á við og halda því. Það er eitt að ná markmiðum sínum en annað að halda þeim. Að halda sér í topp gæðum er erfiðast held ég.“

Atli byrjar að æfa fótbolta með yngri flokkum Völsungs og lætur vel að þeim undirbúningi sem hann fékk þar. „Yngriflokka starfið hjá Völsungi er mjög gott miðað við að þetta er lítill klúbbur úti á landi. Þú færð mjög góðan grunn ef þú leggur þig fram og gerir það sem þér er sagt að gera. Þá mun maður alltaf uppskera því það eru svo fáir þarna að þú kemst alltaf upp í meistaraflokkinn ef þú æfir vel og hugsar um þig. Þá muntu alltaf uppskera eftir því og fá þá sénsa sem þú átt skilið. Það er mjög mikilvægt að fá tækifæri í meistaraflokki ungur eins og ég gerði og fá þennan karlafótbolta. Maður lærir mjög mikið af því. Þannig að ég mundi segja að Völsungur hafi undirbúið mig mjög vel,“ segir hann og bætir við að það séu ákveðin forréttindi að hafa fengið tækifæri með meistaraflokki Völsungs.

„Það eru margir hér í Norwich sem hafa aldrei spilað fullorðins fótbolta, alltaf bara verið í unglingabolta. Það er alveg talsverður munur á þessum tveimur heimum. Ekki endilega tæknilega heldur andlega.“

Lykilatriði að hvíla sig

Þá segir Atli að Íslendingar búi vel að því að eiga maga góða þjálfara og þar sé Völsungur engin undantekning. „Ég mundi segja að þjálfun sé nokkuð góð á Íslandi þó það sé margt ólíkt hér úti. Við erum mikið meira í ræktinni hér og hugsum mun meira um hvernig megi fyrirbyggja meiðsli. Við hitum meira upp og það er hugsað meira um líkamann utan æfinga. Fótboltaæfingin sjálf er ósköp svipuð því sem er heima, kannski aðeins meiri áhersla á tækni hér úti en annars er þetta svipað.“

SMELLTU HÉR TIL AÐ STYRKJA ♥

Atla hefur lengi dreymt um atvinnumennsku í fótbolta en á eldra ári í 5. flokki hafi orðið straumhvörf. „Þá fór ég að gera mér grein fyrir að þetta væri eitthvað sem ég gæti gert. Þá byrjaði ég strax að leggja miklu meira á mig. Tók mataræðið í gegn og fór að æfa aukalega, sofa betur og almennt að hugsa betur um líkamann. Það skilar sér,“ segir hann og bætir við að gæta verði að því að halda jafnvægi á hlutunum. „Auðvitað á ekki að taka þetta of alvarlega allt of snemma. Þá er hætta á að maður brenni út en ef byrjað er passlega snemma, mataræðið tekið í gegn og svefninn lagaður. Ef þetta er gert 100 prósent og maður æfir aukalega og gerir allar þær æfingar sem maður er beðinn um að gera, þá er alltaf hægt að ná markmiðum sínum.“

Það leynir sér ekki að Atli hefur gert einmitt þetta, lagt mikla vinnu í það að ná árangri í íþrótt sinni. Hann hefur sett sér markmið og telur sig vera ná þeim. „Já, ég mundi segja það. Ég verð í varaliðinu hjá Norwich á næsta tímabili og er þegar búin að spila nokkra leiki með því á þessu tímabili. Þannig að ég mundi segja að þetta væri á plani hjá mér. Næsta markmiðið er að spila alla leiki með varaliðinu á næsta tímabili og bæta mig eins mikið og ég get sem leikmaður. Svo verður maður bara að sjá til hvað gerist eftir það.“

Ekkert partístand fram eftir nóttu

Einkalíf er eitthvað sem maður verður að vanda sig með til að ná árangri í íþróttum eins og í öðru í lífinu en að sögn Atla er alveg tími til að njóta lífsins utan fótboltavallarins. „Þú verður bara að passa að hugsa vel um líkamann og hvíldina. Þú getur ekki verið að fara mikið út á kvöldin t.d. En á daginn fer ég mikið út í göngutúra og á kaffihús. Það finnst mér mjög fínt. Það er líka gott og nauðsynlegt að vita hvenær maður á að taka hugann aðeins af fótboltanum. Ef maður hugsar ekki um neitt annað er hætt við því að þreyta geri vart við sig. Maður verðu annað slagið að taka hugann frá, ég fer mikið í bíó og næ þannig að slaka á.“

Atli er ekki eini Íslendingurinn á unglingsaldri í Norwich en Ísak Snær Þorvaldsson úr Aftureldingu í Mosfellsbæ æfir einnig með liðinu og hann er einnig með fjölskyldu sína með sér úti. „Við hittumst oft og eldum saman, förum í bæinn að versla og þannig,“ segir Atli Barkarson.

„Ég mundi segja að helsta fyrirmyndin mín varðandi aga og vinnusemi í fótbolta sé Gylfi Sigurðsson en fótboltalega séð, þá er það Paul Pogba,“ segir Atli en tekur skýrt fram að hann haldi með Arsenal. (stingdu þessu einhversstaðar inn í textann sem kassa eða box eða eitthvað til að bjóta þetta upp.


Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari karlaliðs Völsungs þjálfaði Atla þegar hann var hjá félaginu. Jóhann Kristinn segir hér frá hans upplifun af Atla:

Hann kemur mjög ungur inn í meistaraflokk. Ég held meira að segja að hann hafi snert á honum árið áður en ég tek við liðinu, s.s. 2016. Þarna rétt í lokin. Svo var hann alveg með okkur sumarið 2017 þá 15-16 ára gamall.

Það var aldrei spurning um að það var eitthvað stórt að fara gerast með hann. Þetta gerðist svo hratt hjá honum. Hann tók vel við öllu og var hreinlega búinn að ákveða að hann ætlaði að fara eitthvað út. Ég tók hann í smá einkaþjálfun aukalegam og þegar það fór af stað sprakk hann út. Við unnum líka aðeins í hugarfarinu og hann tók mjög vel í það líka.

Honum gekk mjög vel með landsliðunum og umbarnir fóru að sjá hann snemma. Svo var hann líka mjög góður hjá okkur í meistaraflokki, var að skora mörk og svona.

Eftir eitt ár í svona klúbbi eins og Norwich í akademíu þá fær hann atvinnumannasamning, það er ekki gefins. Það eru fæstir sem ná því. Hausinn er bara þannig skrúfaður á Atla að ég er viss um að hann á eftir að fara þangað sem hann vill. Hann hefur alla þessa hæfileka ofan á allt annað en það er bara svo mikilvægt að hafa hausinn almennilega skrúfaðan á. Svo er hann líka með svo gott bakland en fjölskylda hans hefur staðið þétt við bakið á honum í þessu öllu.

 

Styrkja ♥