Lisa Bergström er 16 ára ævintýragjörn borgarstelpa frá Stokkhólmi í Svíþjóð. Hún ákvað að sækja um að fara sem skiptinemi á vegum alþjóðlegu fræðslusamtakanna  AFS. Hún vildi fara til Íslands og endaði á Húsavík hjá yndilslegu fólki á Tungötunni. Ég hitti Lisu daginn áður en hún hélt heim á leið og hún sagði mér frá reynslu sinni af Íslandi, Húsavík og hvernig það er að eignast nýja fjölskyldu.

Þuríður, Lisa og Einar voru dugleg að ferðast og upplifa skemmtilega hluti á meðan dvöl Lisu á Íslandi stóð. Mynd/aðsend.

Það var vel tekið á móti mér að Túngötu 22 á Húsavík á dögunum. Helga Þuríður Árnadóttir vísaði mér inn í betri stofuna og bauð upp á dásamlegt kaffi og konfekt. Á sófanum sat eiginmaður hennar Einar Sölvi Friðbergsson, heilsaði en lét annars lítið fyrir sér fara. Hann sagði síðar að hann væri vanur að samþykkja allar hugmyndir sem Helga ber upp, hló innilega og bætti við að það hafi líka ævinlega komið vel út.

Þá birtist lítil, örlítið feimnisleg stelpa með risastóran karakter og kraftmikið fas. Hún settist á móti mér og kynnti sig sem Lisu Bergström en hún er skiptinemi frá Svíþjóð sem dvalið hefur á heimili Helgu og Einars í tæpt ár og sótt nám í Framhaldsskólann á Húsavík. Ég spreytti mig á norskunni minni af einskæru monti og spurði hvaða tungumál hún vildi nota í viðtalinu. Lisa hló kurteisislega að norskunni minni og reyndi jafnvel að sýnast þykja mikið til hennar koma, svo valdi hún ensku.

Íslenski hesturinn hefur aðdráttarafl

Aðspurð að því hvers vegna hún valdi Ísland, hló Lisa og sagði að margir hafi spurt sig sömu spurningar og svaraði því til að hún hafi alltaf verið heilluð af landinu enda mikil náttúrumanneskja. „Íslenski hesturinn er þó líklega stærsta aðdráttaraflið og ástæða þess að ég ákvað að koma hingað,“ segir hún en Einar er mikill hestamaður og gat þannig uppfyllt drauma hennar um að kynnast íslenska hestinum.

„Sumir fengu bara að vita um fjölskyldur sínar fáeinum dögum áður en þeir fóru en það er víst mjög erfitt að finna fósturforledra.“

„Ég er búinn að vera hér í 10 mánuði, en þetta er búið að vera mjög gaman en líka erfitt á köflum, sérstaklega að læra tungumálið. Þannig að það hafa verið áskoranir að sigrast á en ég tel mig ótrúlega heppna með fósturforeldra sem hafa tekið mér opnum örmum,“ útskýrir Lisa sem á lögheimili í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar þar sem hún býr öllu jöfnu með foreldrum sínum og eldri systur.

Lisa kveðst hafa sótt um hjá AFS samtökunum og skráð Ísland sem óskaland. Í fyrstu var ekki útlit fyrir að hún fengi laust pláss á Íslandi en svo hafi allt blessast að lokum. „Þá þurfti að fara í alls kyns viðtöl og fylla út pappíra þar sem ég sagði frá sjálfri mér. Að því loknu hófst ferlið við að finna fósturfjölskyldu sem passaði við mínar óskir,“ segir hún og bætir við að hún hafi verið mjög heppin að vera úthlutað fjölskyldu um það bil mánuði áður en hún átti að koma til Íslands. Það hafi gefið henni góðan tíma til að undirbúa sig og kynnast fjölskyldunni.  „Sumir fengu bara að vita um fjölskyldur sínar fáeinum dögum áður en þeir fóru en það er víst mjög erfitt að finna fósturforledra.“

Tungumálið var áskorun

Lisa játar það fúslega að það hafi verið stór áskorun að aðlagast skólanum, sérstaklega vegna tungumálsins. „Þetta er lítill skóli og íslensku krakkarnir eru örlítið lokaðir eða feimnir og hleypa ekki að sér alveg strax, svo er ég auðvitað eins að þessu leiti. En ég var mjög heppin því strax í upphafi var ég kynnt fyrir stelpu sem gengur í skólann og hún hjálpaði mér mikið við að kynnast öðrum krökkum.“ Þá segir Lisa að kennararnir hafi verið mjög indælir og viljað allt fyrir hana gera til að henni liði vel í skólanum. „Ég fékk t.d. að svara verkefnum á ensku, þó að ég hafi þurft að lesa allar spurningarnar á íslensku,“ segir hún og bætir við að þó að hún skilji tungumálið ágætlega þá sé hún óörugg með að tala það.

Þá grípur Helga skyndilega fram í og segir að Lisa tali nú bara mjög fallega íslensku. Lisa roðnar lítilega en segir svo að það hafi líka hjálpað að Einar talar ekki ensku. „Ég neyddist því til að láta vaða í íslenskuna, sem var mjög jákvætt. Flestir Íslendingar tala mjög góða ensku og vilja frekar tala við mig á því máli en að þurfa hlusta á bjagaða íslenskuna mína,“ segir hún og hlær.

Stundum er talað um að einhver sé heimsborgari ef hann ferðast mikið. En ef hann býr eingöngu á gistihúsum á hann þá möguleika á að kynnast raunverulegri menningu þeirra landa sem hann heimsækir? Við gefum þér möguleika á að kynnast heiminum heima hjá þér auk þess sem þú sérð eigið land og þjóð frá nýrri hlið þegar þú kynnist sjónarhóli skiptinemans. Fjölskyldur sem bjóða skiptinemum inn á heimili sín geta verið mjög margbreytilegar, t.d. fjölskyldur með börn, barnlaus hjón eða einstæðingar í bæ eða í sveit. Það er fyrst og fremst áhuginn og hlýtt viðmót sem skiptir máli. Þegar fjölskylda hýsir skiptinema verður hún margs fróðari um land og þjóð skiptinemans. Hún lærir einnig ótal margt um sjálfa sig og okkur Íslendinga. Ýmsar venjur, sem þykja sjálfsagðar, fá nýja merkingu. Skiptineminn verður sem einn af fjölskyldunni.

AFS Fræðslusamtök

„Þetta er búið að vera algjört ævintýri, klárlega erfitt á köflum en reynslan hefur að mestu leiti verið jákvæð og ég hef vaxið mikið sem manneskja við þessa lífsreynslu. Ég þurfti að rífa mig upp úr örygginu heima og læra að verða sjálfstæð. En það er svo gefandi að kynnast nýju landi, nýju fólki og menningu og læra inn á sjálfan sig um leið. Ég er mikið víðsýnni í dag en fyrir 10 mánuðum síðan“ segir Lisa og bætir við að hún mæli klárlega með því að sem flestir prófi að fara sem skiptinemi til annars lands, kynnast nýrri menningu og ferðast um landið. „Ég hef ferðast mjög mikið um Ísland en aftur verð ég að nefna hversu heppin ég er með fjölskyldu sem hefur verið æst í að ferðast og sýna mér allt mögulegt.“

Lisa segist ekki vera búin að ákveða hvað hún ætlar að læra í framtíðinni enda á hún enn tvö ár eftir af framhaldsskóla. En hún segist vilja læra eitthvað sem tengist bátum og siglingum og játar að hún sé heilluð af hvalaskoðunarmenningunni á Húsavík. „Ég á alveg pottþétt eftir að koma aftur hingað og aldrei að vita nema ég kynni mér starfsemina niður við höfn aðeins betur þá.“

Ekki stór menningarmunur á milli landanna

Aðspurð segist Lisa eiga erfitt með að mynda sér skoðun á því hvar menningarmunur Svíþjóðar og Íslands liggur. „Ég sé fyrst og fremst mun á því að búa í stórri borg og svo í litlum bæ eins og Húsavík. Það er auðvitað einhver munur, maturinn er öðruvísi en ég er reyndar vön að borða alþjóðlegan borgarmat. Mesti munurinn sem ég skynja er kannski fólginn í því að á Íslandi hef ég vanist hefðbundnum þjóðlegum heimilismat, eitthvað sem ég gerði aldrei heima í Svíþjóð.“

Einar, Þuríður og Lisa. Mynd/epe.

Þá nefnir hún allan aksturinn sem eitthvað sem hún var er ekki vön að heiman, einnig að sjá mjög unga táninga vinna og eignast bíl 17 ára gamla. Hún telur þó að Svíar og Íslendingar séu á margan hátt mjög svipaðir.

Ein af stærstu upplifunum sem Lisa nefnir frá dvöl sinni er smalamennska. „Þegar ég var nýkomin til Húsavíkur fóru Einar og Helga með mig í göngur. Þar var mér kastað upp á hest og sagt að bjarga mér,“ segir hún og hlær innilega. „Það var virkilega einn af hápunktunum og frábær lífsreynsla sem mun fylgja mér alla tíð.“

Hvers saknar þú mest frá Svíþjóð?

„Ég hef auðvitað saknað vina minna mjög mikið og fjölskyldunnar og söknuðurinn hefur oft verið sár. En svo hef ég líka saknað hluta eins og lengri opnunartíma í Stokkhólmi, ég hef þurft að venjast því hvað allt lokar snemma hérna. Svo var veturinn hérna eitthvað sem ég hef aldrei upplifað áður. Ég held að ég hafi aldrei séð svona mikinn snjó á ævinni og vindurinn var líka rosalegur. Ég mátti oft hafa mig alla við að standa í lappirnar,“ segir Lisa og nefnir líka einangrunina sem fylgir dimmum og snjóþungum vetrum. Hún viðurkennir að skammdegið hafi verið sér erfitt en hún hafi svo sem vitað hvað beið hennar.

Hún viðurkennir að hana hafi oft langað til að gefast upp og fara heim en svo hafi það liðið hjá og eftir áramót sérstaklega hafi henni verið farið að líða  meira eins og hún væri hluti af fjölskyldunni og fann fyrir meira öryggi.

Helga mælir með því að taka að sér skiptinema

Þegar ég spyr Helgu að því hvernig það hafi komið til að hún tók að sér skiptinema, þá svarar hún því til að hún hafi fyrst rekist á auglýsingu á Húsavíkursíðu á Facebook. „Mér finnst rosalega gaman að prófa eitthvað nýtt og dreg fjölskylduna inn í alls konar vitleysur,“ segir hún og hlær. „Þannig að við ákváðum að slá til og við völdum Lisu af þvi að hún var hestakona og við gátum boðið henni upp á að fara á hestbak.“

Þuríður og Lisa og góðri stund. Mynd/aðsend

Helga segir að ferlið hafi alls ekki verið flókið. „Nei, þetta var mjög einfalt, við fylltum bara út eitthvað blað og svo fengum við upplýsingar um Lisu og ætli hún hafi ekki fengið eitthvað svipað um okkur. Í kjölfarið voru allir kátir og hlutirnir gerðust hratt. Lisa var bara komin hingað mánuði eftir að við ákváðum þetta,“ útskýrir hún og endir á að það hafi vantað mjög mikið af fjölskyldum til að taka að sér skiptinema og vanti enn. Hún segir að þetta sé búið að ganga eins og í sögu og að Lisa hafi smollið inn í fjölskylduna frá fyrsta degi. „Það er bara eins og hún hafi alltaf verið alin upp hjá okkur.“

Helga bætir við að hún sé óhrædd við að mæla með því að fólk feti í fótspor sín og fjölskyldunnar og taki að sér skiptinema. „þetta er búið að vera óskaplega góð lífsreynsla en við vorum líka mjög heppin með hana Lisu. Ég held líka að yfir höfuð með þessa krakka, eins og hana Lisu sem er búin að ákveða að vera í næstum heilt ár hjá ókunnugu fólki,-  að þessir krakkar sem ákveða að fara í skiptinám hljóti að vera sterkir karakterar að upplagi.“