Jóla-Matarhorn Víkurblaðsins

Eyþór Mar Halldórsson sér um jólamatinn

Þegar kemur að mat, drykk og öðrum lífsins lystisemdum eru fáir sem meira mark er takandi á en Húsvíkingnum Eyþóri Mar Halldórssyni en hann hleður hér í sannkallaða hátíðarveislu í Matarhorni Víkurblaðsins. Eyþór hefur gert garðinn frægan í veitingabransanum undanfarin ár og nýverið opnaði hann nýjan veitingastað ásamt félögum sínum undir merkjum brugghússins BrewDog. Þá er hann eigandi og veitingamaður á Public House-Gastropub en báðir staðir leggja áherslu á gott úrval af bjór.

Laufabrauð með guacamole 

Ég man eftir spenningnum að fara að baka laufabrauð. Það voru allir að reyna að vera bestir en eftir 2 brauð hjá mér var ég hættur að reyna og ákvað að fjöldi væri betra en gæði. Þannig þekkti ég líka augljóslega laufabrauðin mín sem voru með stóru gati í miðjunni. En það eru engin jól án þess að hafa laufabrauð. Einn af vinsælustu réttunum á Public House í kringum jólin er laufabrauð með guacamole. Þetta er fullkomið sem snakk fyrir fyrsta rétt.

Laufabrauð með guacamole
Laufabrauð með guacamole

Guacamole

Magn Þyngd Hráefni
3 stk Avókadó
2 stk Hvítlauksgeirar, saxaðir
48 g Koríander, saxað
1 stk Rauður chili, saxaður
12 g Lime safi
1 stk Rauð paprika, fínt söxuð

 

Aðferð

Avókadó er maukað í höndunum og restinni bætt við. Smakkið til með salti og pipar

Rjúpusúpa

Pabbi veiddi alltaf rjúpur og því var rjúpustemmning öll jól heima hjá mér….nema að ég fílaði ekki rjúpur. Því neyddist pabbi alltaf að vera bæði með rjúpur og hamborgarhrygg eða purusteik. Þegar ég og konan mín byrjuðum að halda jólin sjálf saknaði ég samt alltaf þess að hafa rjúpulyktina á aðfangadag og því stakk ég upp á því að við myndum hafa rjúpusúpu sem er orðinn hefð hjá okkur í dag. Soðið er gert úr rjúpubeinum og síðan erum við með sveppi í þeim en ekki rjúpu. Auðvitað er hægt að steikja rjúpur og bæta í súpuna.

Rjúpusúpan

 

Rjúpusoð

Magn Þyngd Hráefni
6 stk Rjúpubein og innmatur
3210 g Vatn
82 g Þurrkaðir villisveppir
2 stk Sellerý
2 stk Gulrætur
2 stk Laukur
1 heill Hvítlaukur
28 g Garðablóðberg
11 g Tómat puré
1 stk Kanil stangir

 

Aðferð

Brúnið rjúpubeinin á 181°C í 32 mínútur. Síðan er þetta allt sett saman í pott og soðið í 2 tíma við væga suðu. Þá er soðið sigtað með fínu sigti og soðið aftur niður um helming.

 

Rjúpusúpa

Magn Þyngd Hráefni
997 g Rjúpusoð
732 g Rjómi
100 g Portvín
449 g Sveppir
Villibráðarkraftur

 

Aðferð

Steikið sveppina uppúr smjöri. Þegar þeir eru steiktir bætið portvíninu við, sjóðið það niður um helming og bætið svo soðinu og rjómanum við. Sjóðið saman í um 30 mínútur og smakkið til með salti, pipar og villibráðarkrafti. Ef þið viljið þykkja súpuna er hægt að gera það með smjörbollu eða sósujafnara. Svona gerum við þetta á jólunum hjá mér en ef þið viljið bæta við rjúpu í súpuna er það auðvitað sjálfsagt.

 

Hreindýrasmáborgarar

Ég byrjaði ekki að borða hamborgara fyrr en um aldamótin þegar ég flutti aftur til Húsavíkur eftir 3ja ára eyðimerkurgöngu í Reykjavík. Síðan þá hef ég borðað 1.634 hamborgara í öllum stærðum. Hérna ætlum við að sameina litlu jólin og hamborgara.

Hreindýr eru alltaf mjög jólaleg. Hérna er þau komið í aðeins öðruvísi búning. Við notum blandað nauta og hreindýrahakk. Við setjum gráðaostasósu og appelsínu- rauðlaukssultu til að gefa jólabragð og gufusoðið smábrauð er mjög gott að því það er frekar bragðlaust sem leyfir hinu hráefninu að njóta sín.

Smáborgararnir
Smáborgararnir

 

Smáborgarinn

Magn Þyngd Hráefni
332 g Hreindýrahakk
192 g Feitt nautahakk

 

Aðferð

Allt hrært saman og saltað og piprað. Síðan eru mótaðir 50g smáborgarar sem henta í brauðið.

 

Gufusoðið brauð

Magn Þyngd Hráefni
14 g Þurrger
159 g Volgt vatn
266 g Hveiti
1 g Matarsódi
1 g Lyftiduft
4 g Salt
26 g Sykur
28 g Olía

 

Aðferð

Allt hrært saman og því leyft að lyfta sér í 44 mín. Síðan eru mótaðar 41g bollur og þeim leyft að lyfta sér aftur í um 31 mín. Þetta er síðan gufusoðið í 11 mínútur. Ef ekki er mögulegt að gufusjóða er hægt að baka brauðið í ofni í 12 mínútur á 181°C með blæstri eða þar til brauðið er gullinbrúnt.

 

Appelsínu- rauðlaukssulta

Magn Þyngd Hráefni
346 g Rauðlaukur, saxaður
103 ml Rauðvín
1 stk Rauður chili, saxaður
1 stk Appelsína, rifinn börkur og safi
31 ml Appelsínusafi
21 g Flórsykur
8 g Engifer, saxaður
2 stk Negull
50 g Rifsberjasulta

 

Aðferð

Svitið laukinn og þegar hann er orðinn vel ljós bætið rauðvíninu við. Sjóðið rauðvínið niður um helming og bætið restinni við. Sjóðið þar til að sultan er orðin glæsileg.

 

Gráðaostasósa

Magn Þyngd Hráefni
257 g Sýrður rjómi 18%
142 g Gráðaostur

 

Aðferð

Bræðið gráðaostinn í potti eða örbylgjuofni og bætið sýrða rjómanum við.

Hvítsúkkulaði kaka með ástríðualdin- ostakremi og piparkökum

Ég hef aldrei verið mikill eftirréttarmaður. En þegar ég hugsa um sæt jól þá hugsa ég um piparkökur, greni, osta og hvítt súkkulaði. Hérna er ein frekar auðveld kaka með miklum jólakeim. Hægt er að undirbúa hana nokkru áður en síðan er hægt að raða henni í skál fyrir hvern og einn samdægurs.

Hvítsúkkulaði kaka

Jóla hvítsúkkulaðikaka

Magn Þyngd Hráefni
276 g Sykur
73 g Vatn
224 g Smjör
338 g Hvítt súkkulaði
275 g Heil egg
1 grein Rósmarín, saxað
6 g Lime safi

 

Aðferð

Hitið sykur, rósmarín og vatn saman upp í 118°C. Takið af hellunni. Bætið smáum bitum af smjöri útí þar næst súkkulaðinu og eftir því eggjunum. Bætið lime safanum út í. Setjið í matvinnsluvél og hellið 1,2 cm lagi á bökunarpappír, hægt er að setja þetta í eldfast form í hentugri stærð. Bakið við 141°C í 27 mínútur.

 

Ástríðualdin- rjómaostakrem

Magn Þyngd Hráefni
294 g Sykur
82 g Vatn
6 stk Ástríðualdin
103 g Smjör
504 g Rjómaostur
503 g Rjómi

 

Aðferð

Hitið sykur og vatn saman þar til það fer að sjóða. Takið af hellunni. Bætið við kjarnanum af ástríðualdin og smáum bitum af smjöri útí og síðan rjómaostinum. Kælið. Þeytið rjóma og bætið við.

Piparkökur

Magn Þyngd Hráefni
498 g Hveiti
289 g Sykur
210 g Smjör
2 tsk Matarsódi
2 tsk Negull
2 tsk Engifer
0,5 tsk Hvítur pipar
4 tsk Kanill
1 dl Mjólk

 

Aðferð

Bræðið smjörið og hnoðið það saman með restinni af hráefninu. Látið deigið inn í kæli yfir nótt. Svo er það rúllað út og bakað á 196°C í 7 mínútu

Samsetning

Takið hæfilega skál fyrir hvern og einn. Rífið hvítsúkkulaðikökuna í botninn, setjið ostakremið yfir og brjótið loks piparkökurnar yfir.

E.s. ég er ekki svona nákvæmur. Mér finnst bara fyndið að ímynda mér fólk mæla hvert einasta gramm. Það er alveg óþarfi að vera alvarleg/ur við eldamennsku, aðalatriðið er að njóta. Gleðileg Jól.

http://