Hilmar Valur Gunnarsson, verkefnastjóri Þekkingarnets Þingeyinga. Mynd/ epe

Þekkingarnet Þingeyinga (ÞÞ) vinnur um þessar mundir að undirbúningi verkefnis sem hefur það markmið að stuðla að sjálfbærni í ferðaþjónustu. Verkefnið er styrkt af Erasmus  + sem er styrkjaáætlun Evrópusambandsins fyrir mennta- æskulýðs- og íþróttamál.

Starfsfólk Þekkingarnetsins var á ferð í Brussel í desember s.l. þar sem upphafsfundur Evrópuverkefnisins Sustain-it var haldinn, en ÞÞ kemur til með að stýra því verkefni. Samstarfsaðilar koma frá Belgíu, Ítalíu, Spáni, Kýpur og Írlandi, auk Nýheima á Höfn í Hornafirði.

Víkurblaðið ræddi við Hilmar Val Gunnarson, Verkefnastjóra ÞÞ um verkefnið. „Þetta eru tvö verkefni sem við erum að taka þátt í. Annars vegar Sustain-it og hins vegar solo preneurs, en við stýrum því fyrrnefnda sem snýr að sjálfbærni í ferðaþjónustu. Markmiðið er að greina hvað hefur verið gert á þessu sviði í gegnum tíðina. Við skoðum okkar svæði hér á Íslandi  og samstarfaðilarnir skoða hvað hefur verið gert í heimalandi þeirra. Markmiðið er að þekkingin sem við öðlumst við þá greiningu aðstoði okkur við að búa til kennsluefni og fræðslupakka fyrir lítil og meðalstór ferðaþjónustufyrirtæki sem vilja leggja áherslu á sjálfbærni í sínum rekstri,“ útskýrir Hilmar og bendir á að efnið verði gert opið og aðgengilegt fyrir alla sem vilja nota það á vefnum.

Erasmus + á Íslandi

Áætlunin styður meðal annars skiptinám, sjálfboðaliðastarf, ungmennaskipti, símenntun starfsfólks, notkun upplýsingatækni í kennslu, tungumálanám, viðurkenningu á færni, fjölbreytt samstarfsverkefni, nýsköpun í kennslufræðum, stefnumótun á öllum stigum, átök gegn leikjasvindli og fíkniefnanotkun íþróttum, og margt fleira.

Yfir 10 milljónir Evrópubúa hafa notið stuðnings frá Erasmus áætluninni frá því hún hóf göngu sína árið 1987. Á því 28 ára tímabili sem Íslendingar hafa tekið þátt í samstarfinu hafa íslenskir þátttakendur verið um 30.700 talsins.

Næsti fundur í verkefninu verður í maí á Ítalíu en lokafundur verkefnisin verður á Íslandi.

„Um er að ræða tveggja ára verkefni sem mun ljúka með lokafundi og ráðstefnu hér á Húsavík þar sem afurðin verður kynnt við mikla viðhöfn haustið 2020,“ segir Hilmar og bætir við aðspurður að ferðaþjónustufyrirtækin á svæðinu komi ekki að verkefninu sem stendur enda sé það rétt farið af stað. En hann útilokar ekki að leitað verði eftir slíku samstarfi þegar á líður.