Að allir sýni sóma!

Hjálmar Bogi Hafliðason skrifar

Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir geta líst óánægju sinni þegar mál þeirra eru tekin fyrir hjá þeim sem stjórna samfélaginu, með niðurstöður og afgreiðslur erinda. Umfram allt eru það stjórnmálamenn, kjörnir fulltrúar sem fara með valdið. Þeir taka ákvarðanir og bera ábyrgðina. Þeir eru með embættismenn sem sína helstu ráðgjafa og samstarfsaðila.

Nú hafa deilur milli tveggja stjórnmálaafla kristallast öllum sem heyra vilja og sjá. Inn í það eru allir kjörnir fulltrúar dregnir og embættismenn sömuleiðis. Það er dapurt! Fólk leyfir sér heift og ókurteisi og sýna skort á virðingu og sóma. Að draga embættismann, skipulags- og byggingarfulltrúa, Gauk Hjartarson inn í slíkar deilur er óboðlegt. Hann vinnur samkvæmt niðurstöðu þeirra sem með valdið fara. Og nú hefur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála staðfest að verklag skipulags- og byggingaringarfulltrúans sem gott og gilt. Um það þarf ekki að deila. Menn geta svo verið ósammála niðurstöðunni sem kjörnir fulltrúar taka. Það er önnur umræða og ekki efni þessarar greinar! Heldur að við sýnum kurteisi, virðingu og höldum í heiðri góðum siðum.

Deilum á kjörna fulltrúa, sýnum þeim aðhald, spyrjum þá spurninga og köllum eftir afstöðu þeirra. Vissulega litast stjórnsýslan af því að í Norðurþingi er pólitískt kjörinn sveitarstjóri. Það er vandrataður vegur í meira lagi svo vel sé.

Það hefur verið og er ákaflega ánægjulegt að starfa með Gauki Hjartarsyni á vettvangi stjórnsýlunnar og sömuleiðis falist í því mikill lærdómur, aukið víðsýni manns og stuðlað að því að maður iðkar vandaða og góða stjórnsýslu.

Virðingarfyllst

Hjálmar Bogi Hafliðason

Oddviti B-listans