Að treysta prumpi

Leiðari Víkurblaðsins #17

Mörgum er tíðrætt um umhverfismál þessi misserin og þá sérstaklega loftslags,- breytingar- vá- katastrófu- eða hvaða nöfnum fólk kýs að nota yfir þær „sveiflur“ sem eru að eiga sér stað undir lofthjúp móður okkar Jarðar.

Algengasta lýrikin um loftslagsmál er hvort eða ekki ofhitnun jarðar sé sjálfsköpun okkar mannanna eða hreinlega eðlilegar sveiflur af náttúrunnar hendi. Flestir Vísindamenn eru sammála um að vandamálið sé af mannavöldum og ef ekki verði brugðist við með því að snar-minnka  losun gróðurhúsalofttegunda þá muni komandi kynslóðir þurfa að gjalda þess háu verði. Þá heyrist gjarna í frekar þröngum hópi fólks sjónarmið sem lýsa má þannig að ekki séu allir sammála um hversu margir eru  sammála um að ofhitnun jarðar sé raunveruleg og því síður að hún sé af mannavöldum. Slík efahyggjusjónarmið hafa komið popúlískum froðukjöftum og gapuxum í æðstu valdastöður í valdamiklum ríkjum; að sjálfsögðu með góðum fjárstuðningi hagsmunafla eins og stórfyrirtækjum í olíuiðnaði sem gjarnan vilja halda áfram að djamma án þess að taka tillit til afleiðinganna og gera engar varúðarráðstafanir.

Nú ber að geta þess að þegar ég punkta niður þessar hugleiðingar er ég úti að skemmta mé með konunni og góðum vinum okkar. Við erum búin að vera háma í okkur af mikilli græðgi alls konar mat, hollum og óhollum. Því hef ég svo fylgt eftir með metnaðarfullu bjórsmakki á ölstofu bæjarins ásamt því að fylla kroppinn af lakkrís. Og það vita allir að lakkrísát og bjórdrykkja fara illa saman. Fyrir vikið er ég allur uppþembdur og voðalegur. Öll gerjunin sem á sér stað í iðrunum gefur frá sér lofttegundir sem vilja komast út hið snarasta. Líklega eru það bara hálfsaklausar gastegundir sem vilja út en ég treysti ekki þessu prumpi. Þess vegna sest ég á klósettið til að lensa þetta út ef ske kynni að prumpinu fylgi bónus.

Mórallin í þessari sögu er þessi: Þó að við efumst um að slæmar afleiðingar fylgi hegðun okkar, þá sakar ekki að gera varúðarráðstafanir. Það vill engin/n lenda í því að skíta á sig á djamminu.

Víkurblaðið 17 er komið út – Tryggið ykkur áskrift hér:

Greitt í heimabanka

Greitt með korti