Óskar Ásgeirsson og Kristján Leó Arnbjörnsson urðu á vegi blaðamanns Víkurblaðsins á göngum FSH á dögunum. Þeir sögðurt vera nokkuð ánægðir með félagslífið í sínum skóla þrátt fyrir aðstöðuleysið.

Eftir að félagsmiðstöð grunnskólanema á Húsavík fluttist úr Túni hefur kjallari Framhaldsskólans (FSH) verið leigður undir starf félagsmiðstöðvar. Kjartan Páll Þórarinsson, íþrótta og tómstundafulltrúi Norðurþings segir húsnæðið gott en það hái starfinu að það fari fram í leiguhúsnæði. „Við þurfum t.d. alltaf að taka allt niður og ganga frá eftir notkun en þarna er starfrækt opið hús tvisvar í viku,“ segir hann og bætir við að um bráðabirgðalausn sé að ræða. „Við leigjum þarna per klukkustund og það er í sjálfu sér ágætt samstarf.“

Kjartan Páll Þórarinsson, íþrótta og tómstundafulltrúi Norðurþings. Mynd/epe

Samkvæmt heimildum Víkurblaðsins hefur komið til skoðunar að leigja 400 fermetra húsnæði á 2. hæð Garðarsbrautar 5. undir félagsstarf fyrir ungmenni. Kjartan kveðst ekki haf heyrt um slík áform annað en að hann vissi að húsnæðið væri á lausu. Hann bendir hins vegar á að meirihluti sveitarstjórnar gerði sáttmála á síðasta ári um að ráðast í þarfagreiningu á íþróttahúsum og félagsstarfi, líkt og gert hefur verið í öðrum sveitarfélögum. „Þar voru allir þættir greindir og ég get séð fyrir mér að við slíka greiningu kæmi í ljós að þar sem félagsmiðstöðin okkar er í leiguhúsnæði þá sé úrbóta þörf þar,“ útskýrir hann en leggur áherslu á að þrátt fyrir allt gangi starfið mjög vel í FSH og sé vel sótt. Þá sé félagsstarfið á Raufarhöfn og í Lundi starfrækt í skólunum og þar sé aðstaða til fyrirmyndar.

Framhaldskólanemar á hrakhólum með aðstöðu

Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari FSH bendir á að engin aðstaða sé fyrir hendi þegar kemur að unglingum þ.e. nemendum skólans. Hún dregur samt fram mikilvægi þess að vera með góða manneskju í starfi félagsmálafulltrúa fyrir unglingana. „Við erum með góða manneskju í því starfi hjá okkur hana Selmdísi Þráinsdóttur. Það skiptir máli að vera með manneskju í þessu starfi sem drífur aðra með sér og það er kraftur í henni Selmdísi, það skiptir máli. Í öðru lagi skiptir máli að unglingarnir hafi sjálfir áhuga á starfinu en þar kemur Selmdís aftur sterk inn því hún hefur þennan hæfileika að drífa aðra með sér; enda hefur hún dregið nemendur með í ýmislegt í vetur þrátt fyrir aðstöðuleysi,“ segir Valgerður og bendir á að Selmdís sé mjög lausnamiðuð þegar kemur að því að nýta það sem umhverfið bíður upp á. „Það er farið í alls konar ferðir til að gera sér dagamun og fleira.“