Ánægjulegt skref var stigið í samgöngumálum til Húsavíkur á dögunum þegar ný 32 sæta skrúfuþota Flugfélagsins Ernis fór í sína jómfrúarferð undir stjórn Þráins Hafsteinssonar flugstjóra.

Vélin lenti í Aðaldal síðdegis á miðvikudag í síðustu viku og var vel tekið á móti henni sem og farþegum og áhöfn. Norðurþing bauð viðstöddum upp á tertu sem Örlygur Hnefill Örlygsson forseti bæjarstjórnar sá um að skera.

Hörður Guðmundsson for­stjóri Flug­fé­lags­ins Ern­is tók til máls sem og fleiri, t.a.m. Kristján Þór Magnússon bæjarstjóri Norðurþings og Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar.

„Þetta ein hraðfleyg­asta skrúfu­vél­in á markaðnum í dag. Hún er því mjög fljót í för­um, þykir farþega­væn og er hljóðlát. Það má því í raun segja að þetta sé Rolls­inn í þess­um flokki flug­véla,“ seg­ir Hörður um þessa nýju viðbót við flota fé­lags­ins en hún var keypt sl. vor.

Vélin er af gerðinni Dornier 328-100 og ber ein­kenn­is­staf­ina TF-ORI. Vélin var fram­leidd árið 1998 en kom hún hingað til lands um mánaðamót­in maí-júní og hef­ur frá þeim tíma verið unnið að því að koma vél­inni inn í kerfi fé­lags­ins og þjálfa bæði flug­menn og flug­virkja.

„Við hugsum okkur gott til glóðarinnar og vonumst til að þetta verði til þess að auka umferðina, sérstaklega yfir sumarið. Það er markmið að fjölga ferðafólki,“ segir Hörður og bætir við að nýting sæta hafi verið með þokkalegu móti. „Það reyndar dró aðeins úr þegar framkvæmdum lauk á Bakka en við erum að vonast til þess að við náum traffíkinni aftur upp með því að ná fleiri ferðamönnum inn á svæðið. Það eru ótrúlega mikið af ferðafólki í landinu yfir veturinn líka. Ég man eftir því að fyrir örfáum árum þá var öll ferðamannatraffík búin eftir verslunarmannahelgi. Hér á Suðurlandi er ótrúleg umferð. Það eru fleiri hundruð manns á dag að fara eftir suðurströndinni til Hornafjarðar með rútum.“

Hörður telur að það séu möguleikar til að markaðsetja Þingeyjarsýslur yfir veturinn. „Þetta er svo stórkostlegt svæði alveg frá Dettifossi að Húsavík og Mývatni. Það þarf ekki að gefa þessum Gullna hring fyrir sunnan neitt eftir. Það þarf bara að kynna þetta betur sem svo að þetta sé eitthvað sem ekki megi missa af þegar komið er til Íslands,“ segir Hörður.

Guðmundur Karl Sigríðarson, vallarstjóri flugvallarins í Aðaldal var afar ánægður með nýju vélina þegar Víkurblaðið heyrði í honum á dögunum og notaði tækifærið til að minna á að flugvöllurinn yrði 61 árs 17. desember n.k. Hann segir nýtinguna hafa verið vonum framar en tekur undir með Herði um að umferð hafi dregist lítillega saman eftir að framkvæmdum lauk á Bakka. „Við áttum von á því að þegar framkvæmdum á Bakka lyki þá myndi þetta snögg minka en það kemur á óvart hvað það helst, mér sýnist við verða í 16-17 þúsund farþega yfir árið en vorum í 21 þúsund þegar mest var. Þetta er ekki alslæmt,“ segir Guðmundur.