Af málefnum eldriborgara

Helena Eydís Ingólfsdóttir skrifar

Í Víkurblaðinu þann 14. mars er fjallað um málefni eldri borgara undir liðnum „Orðið á götunni“ og er það tilefni þessara skrifa.

Orðið á götunni veltir upp spurningum um hvort starf FEBH í Hlyn standist reglugerð sem nýverið var sett og ef ekki hvort starf FEBH í Hlyn verði stöðvað. Í fyrsta lagi þá eru engin áform uppi um að stöðva starfsemi FEBH í Hlyn. Félag eldri borgara á Húsavík eru frjáls félagasamtök, sem vinna að hagsmuna-, velferðar- og áhugamálum eldri borgara rétt eins og íþróttafélög sinna málefnum sem snúa að íþróttaiðkun og félagstarfi sem tilheyra íþróttum. Að því leytinu til fellur starf félagsins ekki undir reglugerðina og því er hún engin ógn við félagið eða það starf sem fer fram á vegum þess. Norðurþing og FEBH gerðu með sér samning í maí sl. sem m.a. felur í sér að félagið sjái um tómstundastarf og kveðið er á um tiltekinn opnunartíma með fjölbreyttri dagskrá sem skipulögð skal af félaginu. Þá var jafnframt samið um að félagið standi fyrir viðburðum í anda þess sem starf félagsins hefur hverfst um síðastliðin ár. Fyrir þetta greiðir sveitarfélagið félaginu 3.000.000 kr. á hverju ári í þrjú ár. Endurskoðunarákvæði eru á upphæðinni í tengslum við fjárhagsáætlanagerð hvers árs.

Norðurþing, sem ber skv. 40. gr. laga um félagsþjónustu að tryggja öldruðum aðgang að félags- og tómstundastarfi við hæfi, hefur með samningnum við FEBH útvistað því verkefni frá sér til félagsins. Verkefni FEBH í tengslum við tómstundastarf sem félagið hefur tekið að sér samkvæmt samningnum við Norðurþing fellur undir félagsþjónustu sem veitt er af félagasamtökum m.v. reglugerð nr. 1033/2018 um starfsleyfi til félagasamtaka, sjálfseignarstofnana og annarra einkaaðila sem veita félagsþjónustu.

Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að og tryggja að umgjörð félagsþjónustu sem veitt er af félagasamtökum, sjálfseignarstofnunum og öðrum einkaaðilum sé í samræmi við lög og reglur á sviðinu og uppfylli þær faglegu kröfur sem gera má til slíkra þjónustu- og rekstraraðila. Með tilkomu reglugerðarinnar hafa aðstæður því breyst frá því Norðurþings og FEBH var undirrituðu samninginn.

Orðið á götunni segir að það sé mat stjórnsýslunnar að FEBH skuli sækja um starfsleyfi fyrir starfsemi sína í Hlyn fyrir maímánuð nk. eins og kveðið er á um í reglugerðinni. Hið rétta er að stjórnsýslan hefur ekki gefið neitt út varðandi skoðun sína á því hvort FEBH skuli sækja um starfsleyfi.

Eins og sjá má í bókun fjölskylduráðs þann 11. mars gerði félagsmálastjóri grein fyrir reglugerð um starfsleyfi fyrir félagasamtök og aðra félagsþjónustu fyrir eldri borgara á fundi ráðsins. Ráðið fól þá félagsmálastjóra að boða stjórn FEBH til fundar við ráðið þann 1. apríl m.a. til þess að ræða um tómstundastarf eldri borgara og óskir eldri borgara um frekari stuðning við félagið. Sem sagt engin skoðun eða afstaða um hvort félagið eigi að sækja um starfsleyfi vegna starfsemi sinnar og sinna þá tilteknum hluta félagsþjónustu fyrir sveitarfélagið. Enda er það ekki hlutverk stjórnsýslunnar að taka afstöðu til þess hvort félagið sæki um starfsleyfi. Sú ákvörðun um hvort félagið eigi að þróast í þá átt hlýtur alltaf að liggja hjá félaginu sjálfu og félagsmönnum þess.

Ljóst er að reglugerðin setur auknar kröfur á sveitarfélög sem og þá aðila sem sveitarfélög útvista tilteknum hlutum félagsþjónustu til. Framundan er eins og kom fram hér að framan að Norðurþing og FEBH ræði saman um tómstundastarfið og farveg þess.

Helena Eydís Ingólfsdóttir sveitarstjórnarfulltrúi D- listans í Norðurþingi.