Ágreiningur um hraðahindranir

Athugasemd vegna aðsendrar greinar eftir Kristján Pálsson

Mynd/aðsend.

Í tengslum við aðsenda grein eftir Kristján Pálsson sem birtist í Víkurblaðinu #10 þann 11. apríl sl. er rétt að koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum:

Ljúft er að láta sig dreyma

Víkurblaðið hafði samband við bæjarverkstjóra sem greinarhöfundur vitnar (án þess að geta nafns) til í grein sinni. Hann vildi taka það skýrt fram að allt starfsfólk á framkvæmda og þjónustusviði Norðurþings væri allt af vilja gert til að finna lausnir til að stemma stigu við vaxandi umferðarhraða- og þunga á götum bæjarins. Hann vísaði því á bug að hann eða nokkur starfsmaður á sviðinu hafi nokkuð haft með það að gera að tafir hafi orðið á því að hraðahindrun yrði sett upp á efri hluta Uppsalavegar, starfsfólk sviðsins fylgdi aðeins fyrirmælum frá sínum yfirmönnum, kjörnum fulltrúum. Hvorki smekkur sinn eða skoðanir hefðu nokkuð með málið að gera.

Hann sagði jafnframt að verkbeiðni hafi ekki borist framkvæmda- og þjónustufulltrúa fyrr en sveitarstjóri hafi spurst fyrir um málið. Strax í kjölfarið hafi verið ráðist í framkvæmdina. Nánar tiltekið í nóvember á síðasta ári.

Þá tók hann einnig fram að farið hafi verið eftir reglugerðum við uppsetningu skilta til að merkja hraðahindrunina. Hann viðurkenndi að það hafi ekki komið sér á óvart að hraðahindrunin hafi ekki haldið enda hafi byrjað að snjóa skömmu eftir að hún var sett upp og þessi tegund hindrana þurfi að standa í lengri tíma áður en snjóa tekur svo hún haldi. Þá átti hann von á því að aftur yrði sett upp samskonar eða svipuð hraðahindrun nú í vor.

Sjá einnig: Forneskjulegar hraðahindranir eiga… 

Á 3. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings þann 10. júlí 2018 var tekið fyrir erindi frá Kristjáni Pálssyni og Rannveigu Benediktsdóttur vegna óskar um uppsetningu hraðahindrunar á efri hluta Uppsalavegar. Á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var bókað;
„Skipulags- og framkvæmdaráð tekur undir áhyggjur af umferðarhraða en er ekki reiðubúið að setja niður hraðahindrun að svo stöddu.“

Í svarbréfi ráðsins segir jafnframt; „Afgreiðsla ráðsins er gerð með fyrirvara um staðfestingu sveitarstjórnar Norðurþings og verður þér gert viðvart verði afgreiðslan á annan veg í sveitarstjórn er hér er tilkynnt.“

Í meðfylgjandi erindi var þess getið að sveitarstjórn myndi bregðist við í samræmi við áhyggjur skipulags- og framkvæmdaráðs.

Á fundi byggðaráðs 16. ágúst 2018 lagði Óli Halldórsson fram eftirfarandi tillögu;
„Erindi bréfritara verði samþykkt og hraðahindrun verði komið upp á efri Uppsalavegi fyrir 15. september n.k.“ Byggðarráð samþykkti tillöguna.