„Áhrifin eiga eftir að verða byltingarkennd“

Greinin er hluti af þemaumfjöllun Víkurblaðsins #7 Samgönguúrbætur í Þingeyjarsýslum: Félags- og efnahagsleg áhrif á samfélagið

Kröfluvirkjun, Ljósmynd: @SteveAllenPhoto /Twenty20

Tryggar og góðar samgöngur er eitt af lykilatriðum hvers samfélags hvað atvinnulíf og búsetuskilyrði varðar.

Þorsteinn Gunnarsson, Sveitarstjóri Skútustaðahrepps

Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps tekur undir það. Í samtali við Víkurblaðið sagðist hann telja full snemmt að velta fyrir sér áhrifum Vaðlaheiðarganga á samfélagið í sveitarfélaginu. „En ég er ekki í nokkrum vafa um að áhrifin eiga eftir að verða byltingarkennd,“ segir hann.

Þorsteinn bætir við að göngin eigi eftir að efla samstarf á milli fólks víða að. „Mývetningar eru vanir því að fara það sem þeir ætla sér á sínum fjallabílum en Vaðlaheiðargöngin ýta enn frekar undir að Mývetningar sækja þjónustu inn á Akureyri og Akureyringar komi frekar í heimsókn til okkar. Allt vinnur þetta saman, þetta er samgöngubót sem á eftir að breyta miklu og auka enn frekar samstarf á milli Eyfirðinga og Þingeyinga á allan hátt. Göngin eru fyrst og fremst öryggisatriði fyrir íbúanna og aðra en stuðla um leið að auknum samgöngum og efla ferðaþjónustuna.“

Það er ekki aðeins Vaðlaheiðargöng sem skipta máli varðandi velferð íbúa í samgöngumálum. Fleiri brýnum verkefnum hefur þegar verið ýtt af stokkunum og enn má gera betur.

„Hér er langt komið að leggja bundið slitlag á Hólasandsveg sem er mikil bylting. Þá á að fara í að byggja upp og klára veginn frá Hólasandi og á Þeistareyki sem býður upp á enn meiri möguleika á þessu svæði, ekki síst í ferðaþjónustu.“

Þá leggur Þorsteinn áherslu á að brýnt sé að bæta umferðaröryggi í Námaskarði. „Þar er orðinn einn helsti flöskuhálsinn á leiðinni austur. Mikilvægt er að klára Dettifossveg sem fyrst og verða með öfluga vetrarþjónustu, alla daga vikunnar allt árið um kring. Þá myndi styrkja okkur hér fyrir norðan á allan hátt að ráðast í gangnagerð á milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar,“ segir Þorsteinn að lokum.