Andi liðinna jóla

Egill P. Egilsson skrifar

Þá er aldeilis farið að styttast í þessa hátíð sem flestir annað hvort hlakka óskaplega mikið til eða kvíða. Á mínu heimili er allt að verða fullskreytt (ég á engan heiður að því), strákarnir mínir tveir; sjö og fjögurra ára eru að springa úr eftirvæntingu (og þegar ég segi springa, þá virkilega trúi ég að það sé satt). Það er búið að baka góðan slatta af smákökum og það er búið að éta þær allar (sumt breytist aldrei).

Mig langar aðeins til að rifja upp jóla og aðventu á mismunandi tímabilum í lífi mínu en stemning jólanna hefur verið missterk í hjarta mínu á þessum annars dásamlega tíma. Það er mér alltaf í fersku minni jólin, þau ár sem karl faðir minn rak útgerð með Alla heitnum bróður sínum. Báðir voru þeir þannig úr garði gerðir að þeir vildu alltaf allt fyrir alla gera. Alli frændi var sérstaklega stórtækur þegar hann vildi gera vel við fólkið sitt og það átti ekki síst við um jólainnkaupin í nafni útgerðarinnar en það eru einmitt þessi jólainnkaup sem ég ævinlega sé í hyllingum þegar jólin nálgast. Þegar þetta var, er ég einhvers staðar í kringum 10 ára aldurinn og beið spenntur þegar Alli kom með heildsölufarminn frá Alla Geira. Það var konfekt og annað sælgæti í þvílíkum stöflum að ég hef ekki séð annað eins hvorki fyrr né síðar. Risavaxnir brúnir bréfpokar fullir af eplum og mandarínum, appelsín, kók og jólaöl í magnstæðum. Allt var þetta geymt inni í kaldri geymslu ásamt smákökunum hennar mömmu, og það sem þær bökuðu af þessum kökum í gamla daga var lyginni líkast (loftkökurnar voru samt aldrei lengi að hverfa ofan í mig).

Þessi litla geymsla var minn aðal íverustaður allan jólamánuðinn, því það þurfti að líta eftir þessum fjársjóði reglulega, helst nokkrum sinnum yfir daginn. Auðvitað var ég ekkert að opna neitt af þessu fyrir jól, það var bannað. En ef það var nú gat á einhverjum umbúðunum, þá þurfti nú aðeins að smakka á innihaldinu, a.m.k. svona rétt innan við gatið. Í minningunni voru þeir nú ekkert skörpustu hnífarnir í skúffunni, þeir sem unnu í umbúðaverksmiðju ríkisins. Alla vega var þetta allt meira og minna götóttar og rifnar umbúðir, svo það var ekki við mig að sakast þó afurðirnar entust ekki alla leiðina að jólum. Síðustu vikuna fyrir jól var öllum pökkum sem komu aðsendir, troðið inn í þessa geymslu en eitt af mínum helstu áhugamálum er að þukla jólapakka, konan mín skammar mig mikið á þessum tíma árs og heldur því fram að ég ætti að vera vaxinn upp úr þess. Þvuh!

 Jól vonbrigðanna

Krakkar hlakka flestir mest til að opna pakkana á jólunum. Ég var þar engin undantekning. Stundum steig maður sáttur frá borði úr þeim viðskiptum en alls ekki alltaf. Foreldrar mínir voru nefnilega ekki alltaf með fingurinn á púlsinum þegar kom að því að velja jólagjöf handa prinsinum. Ég minnist þess t.d. þegar ég var 12- 13 ára en þá var hin mikla kraftgalla tíska að tröllríða öllu. Ég var reyndar farinn að búast við því versta þegar ég fann pakkann tveimur dögum fyrir jól og byrjaði að þukla hann. Þetta var mjúkur pakki, þannig að hluti vonbrigðanna var tekinn út strax þarna við fyrstu þuklun. Svo rjátlaði mesta angistin af mér, fyrst fór ég að átta mig á því að þar sem mjúki pakkinn var tiltölulega stór, þá hlyti þetta að vera kraftgalli og það var nú kannski ekki svo slæmt. Það áttu allir vinir mínir kraftgalla; samt ekki spennandi jólagjöf.

Þá tók afneitunin við. Ég fór í fullri alvöru að telja sjálfum mér trú um það að hér væru brögð í tafli. Að foreldrar mínir hafi ákveðið að leika á mig og pakkað inn gamalli sæng og innan í henni væri eitthvað sem í raun og veru væri spennandi eins og Nintendó eða eitthvað viðlíka. Aðfangadagur rann upp að lokum og það kom að því að opna pakkann. Og það var… galli… en ekki kraft galli. Ónei, þarna hafði móðir mín dregið einhverja afleita tískuályktun. Þarna blasti við mér eitthvað sem líklega átti að vera skíðasamfestingur, þunnur vattfóðraður,- fölmyntugænn og fjólublár. Það er ekki til tískutímabil í sögunni til að réttlæta þennan ófögnuð. Og til að fullkomna niðurlæginguna þá var ég látinn máta og svo var tekin mynd.

Aðeins eitt selt eintak

Ég veit að þið eigið erfitt með að trúað því en vonbrigðin við að opna pakkann með skíðagallanum hafa verið toppuð. Ég var á svipuðum aldri og hafði á þessum tíma brennandi áhuga á íslenskum varpfuglum. Ég lá yfir fuglabókum á bókasafninu og óskaði mér drottningar allra fuglabóka í jólagjöf; Fuglar í náttúru Íslands. Ég vissi reyndar að bókin var fokdýr og gerði mér ekki miklar vonir, en það var smá vonarneisti samt. Til að gera langa sögu stutta þá þurfti ekkert þukl til að átta sig á því að hér var ekki um risavaxna fuglabók að ræða í pakkanum undir trénu. Ég opnaði gjöfina hikandi og hvað haldið þið að ég hafi fengið? Nei þið getið ekki giskað á það, enda seldist bara eitt eintak af þessu í heiminum og það voru foreldrar mínir sem keyptu það handa mér: Tungumálatölva!! Eitthvað bráðónýtt apparat á stærð við vasareikni sem átti að gera manni kleyft að þýða stöku orð á milli helstu tungumála í Evrópu, vita gagnslaust drasl. Um leið og ég segi að það skipti ekki öllu máli hvað er inni í pökkunum heldur það sem liggur á bak við þá óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju áru.