Búist við að bleikjuveiði verði leyfð í Mývatni í sumar

Þetta er reyndar regnbogasilungur og mydin er hreint ekki tekin nálægt Mývatni. Mynd: C.K. Burrows/Twenty20

Víkurblaðið sagði frá því fyrir skemmstu að bleikju­stofn­inn í Mý­vatni hafi tekið við sér síðustu ár en bein­ar veiðar hafa verið í lág­marki í vatn­inu frá 2011 og vetr­ar­veiðar aðeins í tvær vik­ur fyrri hluta mars. Vetrarveiðin í ár gekk vel og Helgi Héðinsson, formaður Veiðifélags Mývatns sagði þá í samtali við blaðamann að gott samstarf við yfirvöld um takmarkanir á veiði virðist vera að skila sér, nýliðun í stofninum hafi aukist á ný og stofninn stækkað.

Aðalfundur veiðifélagsins var haldinn í vikunni en í frétt á vef Ríkisútvarpsins er haft eftir Helga að niðurstaða fundarins hafi verið á þá leið að óska eftir því við Fiskistofu að félagið fengi heimild til að nýta bleikjustofninn lítillega í sumar. „Reyndar eru þetta mjög lítil skref sem við erum að stíga, en þó í þá átt að við erum að veiða bleikju að sumarlagi sem hefur ekki verið gert um árabil,“ segir Helgi við RÚV.

Tak­mark­an­ir hafa verið gerðar á veiðitíma, veiðisvæðum og möskvastærð í samstarfi á milli veiðiréttarhafa og Hafrannsóknastofnunar í þeim tilgangi að byggja stofninn upp. Svo virðist vera að það sé að takast ef marka má orð Helga Héðinssonar, formanns Veiðifélags Mývatns í samtali við Víkurblaðið en hann segir að veiði í vetur hafi verið betri en í mörg ár. Nýliðun hafi auk­ist á ný og stofn­inn stækkað.

Tillagan var samþykkt samhljóða á fundinum en hún felur í sér að heimild til sumarveiða verði ekki aukin, heldur nái bæði til urriða og bleikju. Sumarveiðin hefur einskorðast við urriða síðustu ár. Þá kemur fram í frétt RÚV að fylgst verði náið með veiðitölum og ástandi stofnsins.

Mývatn á björtum sumardegi.