Völsungur mætir KR á heimavelli í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarsins en dregið var í höfuðstöðvum KSÍ í gær. Síðast þegar Völsungur komst í 16 liða úrslit var árið 1992 og  þá voru mótherjarnir einnig KR, leikið var á Húsavík líkt og nú.

Fréttavefurinn 640.is greinir frá því að KR sigraði árið 1992 með tveimur mörkum gegn einu. Steinar Ingimundarsonar skorað bæði mörk gestanna en mark Völsungs gerði Hilmar Þór Hákonarson.

„Þetta er auðvitað bara draumadráttur fyrir okkur hér. Að fá eitt allra sterkasta liðið hérlendis í heimsókn á Húsavíkurvöll. Ekki skemmir fyrir að gamlir félagar Pálmi Rafn og Aron Bjarki eru lykilmenn í KR,“ sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Völsungs í samtali við 640.is rétt eftir dráttinn og hvatti um leið Völsunga nær og fjær að mæta á völlinn og búa til alvöru stemningu.

Völsungar í góðu formi

Jóhann Kr. Gunnarsson, þjálfari Völsungs

Völsungar hefja leik í 2. deild karla í knattspyrnu í dag klukkan 16:00 í Akraneshöllinni gegn Kára. Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari liðsins sagði í viðtali sem birtist í Víkurblaðinu #11 sem kom út 25. apríl sl. að stefnan væri tekin á toppbaráttu og allt yrði lagt í sölurnar við að koma Völsungi í 1. deild.

Mikið hefur verið lagt í góðan undirbúning en hópurinn fór m.a. í æfingaferð til Spánar þar sem liði æfði við bestu aðstæður.  Víkurblaðið heyrði í Jóhanni Kristni við komuna til landsins fyrir skemmstu.

Jóhann var að vonum ánægður með æfingaferðina og sagði afar nauðsynlegt að fá tækfæri til að æfa hópinn saman við fyrsta flokks aðstæður. „Hún var alveg mögnuð þessi ferð og hrikalega gaman. Að komast í svona hrikalega góðar aðstæður og getað  æft þar tvisvar á dag er ómetanlegt. Þetta er búið að þjappa hópnum vel saman og búið að vera betra en ég átti von á hreinlega,“ segir hann.

„Það voru líka að koma til okkar nýjir leikmenn og þeir eru að koma mjög vel út,“ segir Jóhann og vísar þar til leikmannanna Akil Defreitas og Inle Valdés Mayarí sem Völsungur samdi við fyrir skemmstu en þeir hittu liðsfélaga sína í fyrsta sinn í æfingabúðunum á Spáni. Akil er 32 ára og er fæddur og uppalinn á Port of Spain á Trinidad og Tobago og getur leikið allar sóknarstöðurnar á vellinum. Valdés er 26 ára markmaður sem er fæddur á Kúbu þar sem hann bjó til 11 ára aldurs þegar hann flutti til Spánar.

„Þeir koma núna heim með okkur bara eins og innfæddir, þeir eru komnir vel inn í hópinn og verða góð viðbót við flottan leikmannahóp,“ útskýrir Jóhann.

Að sögn Jóhanns er liðið í góðu formi og vel á áætlun. „Já, svona flestir en því miður komust ekki alveg allir með en við erum búnir að æfa hrikalega vel þarna úti og búnir að æfa vel í vetur þannig að ég er mjög ánægður með standið á mönnum, það er ekkert að forminu.“

Jóhann gerir heldur ekki minnstu tilraun til að draga úr væntingum. „Ég hef miklar væntingar og það er viljandi gert. Við setjum allir pressu á okkur því við ætlum okkur að gera betur en í fyrra þegar við vorum mjög nálægt því að fara upp um deild. Við ætlum að gera grimma atlögu aftur þó að 2. deildin verði sennilega enn sterkari í ár. Við þurfum þá bara að vera sterkari líka.“

Strákarnir komu heim þriðjudagskvöldið 23. apríl og áttu leik í Mjólkurbikarnum á gervigrasinu á Húsavík gegn Tindastóli daginn eftir eða á miðvikudagskvöldið 24. apríl. Þar vannst frækinn sigur 3-1 með tveimur mörkum nýliðans Akil Defreitas og einu marki frá Bjarki fyrirlið Baldvinssyni. Í 32-liða úrslitum steinlá Mídas 4-0 á Húsavíkurvelli og næsti mótherji er sem fyrr segir stórlið KR. Leikurinn fer fram á Húsavíkurvelli fimmtudaginn 30. Maí klukkan 14.