Eva Björk Káradóttir er aðflutti Þingeyingur Víkurblaðsins að þessu sinni, en Víkurblaðið mun halda þá hefð heilaga að vera með Þingeyinga í nærmynd hvar í heimi sem þeir eru í hverju blaði.

Sjá einnig: MAGNÚS HALLDÓRSSON Í SEATTLE

Þegar við tókum ákvörðun um að flytja hingað var ég komin með nóg af Reykjavík og stressinu sem fylgir borginni og hlakkaði til að komast aftur í rólegra umhverfi úti á landi“

Þegar þú varst barn, hvað langaði þig þá til að verða þegar þú yrðir stór?

„Sem barn hafði ég mikinn áhuga öllu sem tengdist dýraríkinu og hafði líka mjög gaman af því að teikna og mála.  Ég vildi þess vegna verða dýralæknir eða listamaður alla mína æsku en hætti fljótlega við dýralækninn þegar ég komst að því hvað starfið fól í sér en ég hélt áfram að rækta listaspíruna í framhaldsskóla og háskóla. Það er gaman að hugsa til þess að í dag fæ ég að sameina áhugann á hvoru tveggja hér í Hvalasafninu á Húsavík.

Í september byrjun árið 2017 tóku Eva og Sigurjón þá ákvörðun að leggja land undir fót og flytja til Húsavíkur. Sigurjóni hafði þá verið boðið að taka við stöðu framkvæmdastjóra Sjóbaðanna á Húsvíkurhöfða, þau pökkuðu niður sínu hafurtaski og fluttu tveimur mánuðum síðar.

Eva hafði að eigin sögn alltaf góða tilfinningu fyrir Húsavík.  „Þegar við tókum ákvörðun um að flytja hingað var ég komin með nóg af Reykjavík og stressinu sem fylgir borginni og hlakkaði til að komast aftur í rólegra umhverfi úti á landi.  Ég hafði samt aldrei komið hingað áður en við tókum ákvörðun um að flytja.  Það kom skemmtilega á óvart hvað allt svæðið hér er fjölbreytt og fallegt,“ útskýrir hún.

Eva er nú þegar búin að eignast sína uppáhalds staði í sýslunni. „Allt svæðið frá Eyvíkurfjöru að Tungulendingu er í uppáhaldi þegar ég fer í göngu með hundana mína. Svo er slökun í Sjóböðunum auðvitað líka efst á listanum.“

Hefur þú tekið eftir einhverjum séreinkennum hjá Þingeyingum/ Húsvíkingum sem þér þykja skrítin, fyndin eða jafnvel óþolandi?

„Er þetta brelluspurning? No comment.“

Eitthvað sem fer í taugarnar á þér á svæðinu?

Já, bann við lausagöngu katta.  Ég er mikil kisukona og þykir þetta bann vera alveg út í hött.

 Hvers saknarðu helst frá heimahögunum?

Fjölskyldu og vina bæði að austan og sunnan. Og að rekast á kisur úti á götu.

Aðspurð segir Eva að hún sé að njóta þess að vinna á Hvalasafninu á Húsavík.  „Ég er með frábæran starfshóp í kring um mig og við erum með ýmsar hugmyndir sem verður spennandi að hrinda í framkvæmd á næstu misserum,“ segir hún og bendir á að nú sé hægt að fá ársaðgang á safnið sé greitt fyrir einn fullorðinn.   „Til að prófa nýja kerfið okkar viljum við bjóða öllum íbúum í Norðurþingi upp á frítt árskort. Ég hvet alla þá sem hafa áhuga að okkur póst á info@hvalasafn.is með yfirskriftinni árskort, fyrir 28.febrúar.“

Allt svæðið frá Eyvíkurfjöru að Tungulendingu er í uppáhaldi þegar ég fer í göngu með hundana mína. Svo er slökun í Sjóböðunum auðvitað líka efst á listanum

Í vor stendur til að halda upp á rúmlega 20 ára sögu Hvalasafnsins með veglegri afmælissýningu þar sem stiklað verður á stóru úr sögu safnsins.  „Þar sem ég er enn að kynnast Húsavík þætti mér mjög skemmtilegt að heyra sögur frá bæjarbúum sem tengjast safninu eða sjá ljósmyndir frá uppbyggingu og starfsemi þess til viðbótar við það efni sem við erum að vinna úr,“ útskýrir Eva og minnir á að afmælishátíðin verður haldin 9-11 maí. „Hún hefst með fimmtu hvalaráðstefnu Hvalasafnsins 9. maí.  Opnunar á afmælissýningu 10. maí og afmælisveislu 11. maí.

Undanfarin ár hafa Íslendingar verið u.þ.b. 7% af heildarfjölda þeirra sem heimsækja Hvalasafnið.  „Okkur langar mikið að ná betur til Íslendinga og sérstaklega íbúa Norðurþings.  Við vonumst til þess að ársmiðarnir munu hafa hvetjandi áhrif á gesti til að koma reglulega í heimsókn og munum einnig leggja áherslu á að hafa starfsemina í safninu lifandi og breytilega þannig að það verði reglulega eitthvað nýtt og spennandi að sjá.

 Að lokum, eiga Íslendingar að veiða hvali?

„Ég sé ekki neina gilda ástæðu fyrir Íslendinga til að stunda hvalveiðar.  Við þurfum ekki á hvalkjöti eða öðrum hvalaafurðum að halda og það er lítil eftirspurn eftir þeim, svo af hverju að veiða þá?“