Viðar Breiðfjörð, myndlistarmaður frá Húsavík var nýlega útnefndur bæjarlistamaður Vestmannaeyja en þar hefur hann verið búsettur í allnokkur ár.

Viðar er fæddur árið 1962 á Húsavík og er alinn upp í stórum systkinahópi þar. „Við vorum sjö systkini. Ég var alinn upp með fjórum systrum en á eina systir í viðbót og einn bróðir sem er látinn en ég var í miðjum systkinahópnum,“ segir Viðar í samtali við Víkurblaðið.

Viðar Breiðfjörð, Bæjarlistamaður Vestmannaeyja 2019.

Foreldrar hans voru Helgi Breiðfjörð Jónasson og Elsa D. Sigurðardóttir. „Móðir mín var úr Eyjum en faðir minn frá Húsavík. Þegar móðir mín var að svæfa mig þegar ég var lítil drengur sagði hún mér oft frá kynlegum kvistum frá Vestmannaeyjum og núna telst ég einn af þeim. Það var til þess að ég fluttist ungur til Eyja árið 1983,“ segir Viðar.

Hann segist hafa teiknað frá því að hann var ungur drengur en hafi farið að mála upp úr 1990.  „Fyrst þegar ég byrjaði að mála fór ég fljótlega í impressionískan stíl, það er viss stíll í listinni. Svo þróaðist það út í abstrakt myndir,“ útskýrir Viðar og viðurkennir að það sé lífsgleðin sem knúi hann áfram í listinni. „Það er alltaf mikil gleði í mínum myndum, því oft hef ég verið nær dauðanum í lífinu. Til að mynda hrapaði ég einu sinni tuttugu metra niður af bjargi í Eyjum,“ segir Viðar og bætir við að hann hafi einnig lent í mótorhjólaslysi í Reykjavík.

Viðar lýsir því einnig að hann hafi gaman af því að teikna og vinna með fugla í tengslum við innblástur sem hann fær úr samskiptum við annað fólk og reyni að draga upp manneskjuleg persónueinkenni í fuglamyndum sínum. Hann segist sérstaklega notast við uglur. „Þær hafa kynlegt útlit og geta snúið höfðinu í tvö hundruð og sjötíu gráður. Þær hljóta þar af leiðandi að vera mjög forvitnar,“ útskýrir Viðar.

Hvað er helst á döfinni hjá þér í listinni?

„Ég var valinn bæjarlistarmaður nú í ár, 2019 og er að vinna að sýningu sem ég verð með um goslokahelgina en það er fyrsta helgin í júlí. Einnig vinn ég að myndlist á ferðalögum mínum í húsbifreiðinni Rannsý þar sem ég ferðast um landið og fæ innblástur af mannlífinu. Ég verð jafnvel með aðra sýningu í haust sem ber heitið „Syngið þið fuglar“.“

Innblástur fyrir abstraktmyndirnar segist Viðar fá frá lífsgleðinni og þakklæti fyrir að vera á lífi. „Ég vil miðla áfram með list minni lífsgleði og innri fegurð. Ég mála blómamyndir og áhrifavaldar þeirra eru látnir ástvinir. Það var maður sem sagði við mig að það væru bara konur sem mála blóm en ég svaraði: Það eru bara konur sem kaupa af mér málverk.“

Listin segir Viðar að sé óslökkvandi þörf sem hann finni stöðugt fyrir. „Það var byrjað að kenna hana á Ítalíu um aldamótin 1500-1600. Listin er gefandi fyrir mig en á vorin og um bjartar sumarnætur finnst mér yndislegt að vaka og mála. Á góðum haustdögum er maður fullur af orku eftir sumarið, þá er oft fullt batteríið,“ segir Viðar og bætir við að lokum að það hafi mikla þýðingu fyrir sig að hafa verið valinn listamaður Vestmannaeyja. Það er mikil viðurkenning frá góðu fólki í Eyjum. Það hefur mikla hvatningu fyrir mig og fær mig til þess að halda áfram, leyfa listinni að fara sinn farveg og mér að þróast sem listamaður. Ég er umvafinn alla daga yndislegu fólki í Eyjum og faðmi fagra kletta. Það er gott að mótast af mannlífinu í Eyjum.

„Að lokum vil ég segja frá því að í sumar mun ég ásamt bifhjólafólki frá Eyjum heimsækja Húsavík á Mærudögum. Þessi ferð byrjaði í fyrra og verður á hverju ári og kallast Breiðferðin. Hún er nefnd í höfuðið á mér.“