Sólrún Hansdóttir gjaldkeri félags eldriborgara í Þingeyjarsveit segir félagsstarfið í sveitinni vera með ágætum. „Það má samt alltaf gera betur, en við erum t.d. búin að mæta góður átta manna hópur reglulega í tvö ár á boccia-æfingar í íþróttahúsinu á Laugum,“ segir hún og bætir við: „Æfingar eru á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum og fólk fer þá gjarna í sund líka eða pottinn og stundum gerum við æfingar í tækjasalnum.“

Sólrún bendir einnig á að eldriborgarar haldi opið hús á þriðjudögum. „Þá borðum við saman og höldum það til skiptis í skólunum hér í sveitarfélaginu.

Hún segir félagið telja um 80 meðlimi og eitthvað fleiri ef heiðursfélagar eru teknir með. „Við förum alltaf tvær skemmtiferðir á ári. Eina sumarferð og þá gistum við gjarna eina nótt. Á Haustin förum við í dagsferð að skoða eitthvað. Þá gerum við okkur gjarna dagamun og förum saman í bíó eða eitthvað slíkt. Í fyrrahaust fórum við upp í Mývatnssveit og keyrðum svo niður Bárðardal og skoðuðum hann vel. Við enduðum síðan í Breiðumýri þar sem haldið var kótelettu-kvöld, en það mættu um 50 manns í þá ferð,“ segir Sólrún að lokum.