Þórdís Kristin O’Connor og Guðrún Helga Sörensdóttir eru í Stúlknakór Húsavíkur og eru búnar að vera lengi í kór þrátt fyrir ungan aldur.

“Við byrjuðum í fimmta bekk báðar, en við erum í sjöunda bekk núna, þannig að þetta eru að verða tvö ár,” segir Þórdís.

Þær segja báðar að þeim líki vel að vera í kór og það sé mjög skemmtilegt. “Maður hefur kynnst svo mörgum, þetta er eins og fjölskylda manns og svo er auðvitað svo gaman að syngja,” segir Þórdís

Stúlknakór Húsavíkur söng á Hjálmadegi Kiwanis. Aðsend mynd.

“Við vorum að syngja með Rafnari Orra í Samkomuhúsinu og í Hofi á útgáfutónleikunum hans vegna plötunnar VODA sem hann var að gefa út,” segir Guðrún Helga. En þær sungu einnig með í einu laganna á plötunni.

Þá kom Stúlknakórinn einnig fram á Hjálmadegi Kiwanis sem fjallað er nánar um á baksíðu og á Listahátíðinni Skjálfanda sem fór fram í Samkomuhúsinu á föstudagskvöld sl.

Næst á döfinni hjá Kórnum er að taka þátt í norrænu kóramóti sem fer fram 5-9.júní og heitir Norbusang. Í ár er það haldið í Borgå í Finnlandi en á síðasta ári var það haldið hér á landi, nánar tiltekið í Garðabæ.

Stelpurnar fóru báðar með til Garðabæjar í fyrra og sögðust hafa skemmt sér mjög vel og vildu koma á framfæri þakklæti til allra sem hafa styrkt kórinn til ferðarinnar til Finnlands. Helstu styrktaraðilar eru Orkuveita Húsavíkur, Lions, Framsýn, Menningarsjóður Norðurþings, Kvennfélag Húsavíkur, Kvennfélag Reykjahrepps, Soroptimistar og Kiwanis.