Fjölbreytni er lífsgæði

Leiðari Víkurblaðsins #15

Leiðari

eftir Egil P. Egilsson


Í blaði vikunnar er lítil frétt um fyrirhugaðar framkvæmdir við Stangarbakka á Húsavík sem er reyndar orðin nokkurra daga gömul en hún fjallar að hluta um gerð göngu/hjólreiðarstígs. Það sem vakti athygli mína og hreyfði við mér í sambandi við þessa frétt er færsla sem ég las á samfélagsmiðlum fyrir skemmstu þar sem efni fréttarinnar er til umræðu. Það er Óli Halldórsson, sveitarstjórnarfulltrúi sem færsluna ritar og bendir hann á jákvæðar hliðar slíkra framkvæmda, þ.e. lífsgæðaaukninguna sem íbúar öðlast með fjölbreyttari útivistarleiðum og valmöguleikum í samgöngum. Hann vill halda áfram og segist vonast til að sátt náist um að gera samskonar stíga áfram að gullfiskatjörnum við Kaldbak, þaðan í Saltvík og helst alla leið inn í Reykjahverfi. Þá bendir hann á að þörf sé á samgönguúrbótum frá Bakka og niður í bæ. Upplagt sé að gera samskonar stíg þangað og gera fólki þannig mögulegt að velja sinn samgöngumáta sem það kýs, hvort sem það er á tveimur jafnskjótum, á hjóli eða rafskutlu.

Þarna liggja vissulega tækifæri til að efla Norðurþing sem heilsueflandi samfélag og gefa íbúum í leiðinni alvöru valkosti um umhverfisvænan ferðamáta í og úr vinnu. Ég verð að taka heilshugar undir með Óla og tel að í slíkum framkvæmdum felist skynsamleg fjárfesting til lengri tíma, sem skilar sér í alvöru hagvexti, þ.e. aukinni lífshamingju íbúanna.

Sjálfur er ég svo til rétt byrjaður að kynnast útivist að einhverju ráði og þurfti heimilislausa blendingstík til svo ég drullaðist til að fara líta í kringum mig og njóta umhverfisins sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða. Sumar gönguleiðirnar sem ég hef valið undanfarnar vikur vissi ég ekki að væru til, aðrar vissi ég um, en hafa breyst svo mikið að þær eru mér sem nýr heimur.

Helst ber að nefna stígana og útivistarsvæðið við skóræktina ofan við Skálabrekku og æskuheimili mitt. Þarna lék ég mér sem barn flestar mínar stundir og var mér bæði ævintýraheimur og skjól frá amstri hversdagsins. Í þá daga var risavaxið tún sem skildi að Skálabrekku og skógræktina, tún sem stundum breyttist í vígvöll þegar Brekkusniglar, Torgarar og stundum Hólarar fylltu túnið og börðust sín á milli með trésverðum og skjöldum sem Óli Galdramaður hafði aðstoðað við að smíða.

Í dag er túnið horfið í skóg, og hefur ekki versnað fyrir vikið og stígarnir umhverfis og inn í skóginn er orðin minn uppáhaldsútivistarstaður. Þarna hef ég farið margsinnis á þessum stutta tíma frá því að ég gerðist ábyrgur hundaeigandi með alla fjölskylduna, grillað sykurpúða í „grillrjóðrinu“ og notið þess að búa til ný ævintýri. Takk fyrir mig Norðurþing (og líklega Jan Klitgaard), þetta eru lífsgæði sem ég kann að meta.

Alþingi ungafólksins

Þingfundur ungmenna var haldinn í Alþingishúsinu 17. júní í tilefni að 75 ára afmæli íslenska lýðveldisins. Þar átti Norðurþing tvo frábæra fulltrúa, en það voru ungu konurnar Ásdís Einarsdóttir úr Lóni í Kelduhverfi og Friðrika Bóel Jónsdóttir frá Húsavík.  Þrír málaflokkar voru teknir til umfjöllunar; umhverfis- og loftslagsmál, jafnréttismál og heilbrigðismál. Í lok þingfundar tók Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við ályktunum ungmennaþingsins og sagði hún að þær yrðu teknar til umfjöllunar á Alþingi í haust og myndu fá skoðun í viðkomandi þingnefndum. Katrín sagði að ungmennaþingið væri mikilvægt því með því fengju börn og ungmenni sterkari rödd.

Allt frá dögum Platóns hafa eldri kynslóðir haft áhyggjur af þeim sem yngri eru og þá sérstaklega unglingunum. Ekki hefur tuðið verið sparað eða jafnvel formælingar um hinn vonlausa ungdóm og glataða framtíð. Þrátt fyrir áhyggjur hinna eldri af framtíð æskunnar hafa kynslóðir vaxið úr grasi og gert samfélög mannanna betri. Framfarir verða sífellt hraðari, þekking eykst með hverri kynslóð og í þeim samfélögum þar sem konur, karlar og unglingar eins og þessir frambærilegu fulltrúar fá að láta ljós sitt skína og viðra hugmyndir sínar á jafnréttisgrundvelli; það eru samfélögin þar sem hamingjan festir rætur.

Víkurblaðið í Áskrift

Nú hefur Víkurblaðið komið út sem fríblað síðan í nóvember og var alltaf ætlunin að svo myndi áfram verða. En það er kostnaðarsamt að láta prenta fyrir sig bæjarblað í þessu upplagi og senda það inn um bréfalúgur flestra Þingeyinga. Vonir stóðu til þess að auglýsingar myndu standa undir þessum kostnaði en nú er morgunljóst að sú er ekki raunin. Þá er ekki annað að gera en að prófa plan B; selja blaðið í áskrift.

Víkurblaðið er nú þegar farið að fá áskrifendur og þess ber sérstaklega að geta að allir þeir sem höfðu skráð sig sem styrktaraðila, eða Val-áskrifendur munu áfram fá blaðið sent heim óháð styrkupphæð út árið (eða eins lengi og blaðið mun koma út ef það endist ekki árið). Þetta er s.s. fyrsta blaðið sem ekki er borið frítt inn á heimili og fyrirtæki í sýslunni en þetta tölublað verður samt látið liggja frammi í helstu verslunum og þjónustustöðum enda tekur aðeins lengri tíma að ná ásættanlegum fjölda áskrifenda.

Um leið og ég hvet alla sem vilja sjá öflugt héraðs og bæjarblað vaxa og dafna í takt við nýja tíma til þess að tryggja sér áskrift; þá vil ég þakka öllum þeim sem hafa þegar keypt áskrift og verið í Val-áskrifendahópi Víkurblaðsins. Án ykkar væri ég löngu hættur. Ég mun halda áfram að reyna koma fótunum undir rekstur Víkurblaðsins og gera hann sjálfbæran eins lengi og ég mögulega get. Með fleiri áskrifendum og velunnurum er ég bjartsýnn á að Víkurblaðið sé komið til að vera og ég get lofað dyggum lesendum því að metnaður ritstjórnar mun aukast í takt við fjölgun áskrifenda.

Takk fyrir

Egill P. Egilsson, ritstjóri.