Christoph Wölle (38 ára) frá Diethardt í Þýskalandi er með master í Skógfræði en sagði upp vinnunni sinni sumardaginn fyrsta árið 2014 þegar konan hans fékk starf í Vatnajökulsþjóðgarði. Þau settust að á Kópaskeri þar sem Christoph starfar sem kennari. Hann segir lesendum Víkurblaðsins frá því hvers vegna hann endaði á Íslandi og hvaða augum hann lítur samfélagið.

Þegar ég var að læra skógfræði í háskóla í Þýskalandi þá var liður í náminu að ferðast á annan stað. Ég hafði alltaf dreymt um að heimsækja Ísland en það var ekki í boði í gegnum námið því það var of dýrt. Ég sótti þess vegna um sem sjálfboðaliði sem þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfri og fékk það. Ég kom til Íslands 2003 og vann í tvo mánuði. Það var mjög gaman ekki síst vegna þess að ég kynntist konunni minni, Guðrúnu Jónsdóttur frá Núpi,“ segir Christoph.

Hann segir að fyrst um sinn hafi þetta verið hálfgerð fjarbúð en þau hafi verið dugleg að heimsækja hvort annað. „Hún vann í Vesturdal og ég fékk að taka í sauðburði, göngum og slíku. Hún heimsótti mig líka og dvaldi hjá mér í Þýskalandi á meðan ég kláraði námið mitt og útskrifaðist með mastersgráðu í skógfræði,“ segir hann.

Christoph ásamt konu sinni Guðrúnu Jónsdóttur frá Núpi, á góðri stund. Mynd: Árdís Jónsdóttir.

Flutti til Íslands rétt fyrir hrun

Árið 2008 þáði Christoph starf í litlu skógræktarfyrirtæki á Héraði og flutti með konunni til Egilsstaða og þá skall á kreppa. Fjölskyldan var á Héraði í þrjú ár og á þeim tíma plantaði Christoph yfir milljón trjáplöntum. Þaðan lá leiðin til Borganess og að lokum til Akureyrar. „Ég var í tvö ár hjá umhverfisstofnun á Akureyri þar sem ég reiknaði út losun gróðurhúsalofttegunda á  Íslandi,“ útskýrir Þjóðverjinn en það er óhætt að segja að hann hafi komið víða við.

Árið 2014 var enn komið að kaflaskilum en þá sótti Guðrún um heilsársstarf í Vatnajökulsþjóðgarði og fékk það. „Ég reyndi að flytja skrifstofustarfið mitt með mér en fékk það ekki í gegn þannig að ég sagði upp vinnunni minni og við fluttum austur á Kópasker þar sem ég mældi göturnar fyrst um sinn,“ segir Christoph brosandi og bætir við: „Þá varð á vegi mínum skólastjórinn í Lundi og bauð mér vinnu. Ég hef unnið sem leiðbeinandi síðan þá en ég lauk við master í menntunarfræðum við Háskólann á Akureyri í fyrra og er því orðinn kennari,“ segir hann stoltur.

Finnst Íslendingar stundvísir

Aðspurður um hvað hafi komið honum helst á óvart í fari Íslendinga segist Christoph ekki hafa verið með neina ákveðna mynd af Íslendingum í huga þegar hann kom fyrst til landsins. „Mér finnst Íslendingar mjög afslappaðir og kunna betur að slappa af en ég og landar mínir,“ segir hann og skellir upp úr.

Hann viðurkennir einnig að hann standi undir staðalímynd þjóðverja um stundvísi en það sem frekar kemur á óvart er að honum þykir Íslendingar vera það öllu jafna líka.

Það var áskorun fyrir hann að ná tökum á tungumálinu fullyrðir hann en það er bæði eftirtektar- og aðdáunarvert hversu vel hann talar íslensku. „Íslenskan er erfið en það sem hjálpar okkur Þjóðverjum er að allur undirliggjandi strúktúr með fjórum föllum og slíku er líkur í báðum málum. En að læra að beygja nafnorð eða vita hvenær á að nota þolfall eða þágufall og beygja sagnir; það er mjög flókið. Reglurnar eru margar og ég er búinn að læra þær flestar, en tungumálið hlýðir ekki alltaf þessum reglum,“ segir Christoph og bætir við að krakkarnir í skólanum hjálpi honum mikið og séu ófeimin við að leiðrétta villur. „Það mættu fullorðnir taka sér til fyrirmyndar.“

Kann vel við sig í fámenninu

Eftir fjögur ár á Kópaskeri segist Christoph ekki láta fámennið eða einangrunina trufla sig enda sé hann frá litlu þorpi sjálfur. „Mér finnst mjög gott að búa í litlu þorpi, helstu gallarnir eru að við þurfum að ferðast 200 km leið til að versla á Húsavík, þ.e. fram og til baka. Þannig að maður þarf að vera skipulagður og listinn að vera góður. Rest kaupir maður hér. Það sem mér helst finnst vanta er fleiri börn. Strákurinn minn er einn í sínum árgangi í skólanum og það væri betra ef hann hefði einhvern á sama aldri til að geta borið sig saman við, algjöran jafningja. Núna er hann elstur í 3. bekk og finnst mjög gaman en næst fer hann í miðdeild og þá verður hann einn yngstur. Fyrir hann er ekki alltaf mögulegt að finna og velja sér vini eins og fyrir barn í stórum skóla. Á hinn bóginn leggur skólinn og foreldrar hér á svæðinu áherslu á að allir geti umgengist alla og engin sé skilin út undan. Það er eitthvað sem þau læra strax og er góður undirbúningur fyrir framtíðina þegar þau þurfa að umgangast alls konar fólk t.d. á vinnustöðum,“ segir hann.

Jón Emil, 8 ára, í 3. bekk; tvíburar Hugi og Dalía sem fæddust 17. júni 2013, núna í elsta árgangi leikskólans.

Þá segir Christoph að ein stærsta áskorunin við það að búa á Íslandi sé það að reyna byggja upp og viðhalda þýsku máli hjá börnunum sínum. „Það er erfitt að skipta yfir á þýsku þegar allt umhverfið og hugsunin er á íslensku þess vegna tölum við meiri íslensku en þýsku heima. En árleg heimsókn til Þýskalands á sumrin gefur þeim alltaf boost áfram. Og ég er mjög þakklátur fyrir að fá að kenna þýskum börnum móðurmál sitt einu sinni í viku. Þess vegna finnst mér mikilvægt að skólar geri sitt besta þegar fjárhagsáætlun leyfir að finna leiðir til að kenna sérstaklega þeim börnum sem flytja til Íslands einnig móðurmálið sitt. Foreldrar eru hér auðvitað í aðalhlutverki en hlutir eins og fagorðaforði kunna skólar kannski betur.“

Eru Íslendingar fjölmenningarlegir?

„Mér finnst til fyrirmyndar hvernig Íslendingar taka á móti útlendingum en þá verður líka að taka það fram að ég er þjóðverji, og er giftur íslenskri konu og á þrjú íslensk börn. Ég er með góða háskólamenntun. Ég sker mig því ekki svo mikið úr en 95% af minni upplifun er jákvæð, það er alltaf verið að hrósa manni fyrir það hvað maður er duglegur að tala íslensku og fólk er almennt mjög vingjarnlegt.“

Þá segir Christoph að nærumhverfi hans sé afar fjölmenningarlegt. „Ég var að gamni mínu að taka þetta saman. Í skólanum hjá okkur eru 25 nemendur þar ef eru sjö með annað foreldrið erlent eða 28 %. Tvö af börnunum eru nýflutt til landsins, komu fyrir einu eða tveimur árum síðan. Í leikskólanum eru tvær deildir og alls 17 börn. Helmingur þeirra með annað hvort foreldrið af erlent. Í skólanum er hluti af kennurum jafnframt af erlendum uppruna.“

Öxarfjarðarskóli hefur verið að gera góða hluti í að þjónusta og koma til móts við ólíkar þarfir innflytjenda. Christoph tekur dæmi um pólska stúlku í áttunda bekk sem fær einka tíma í íslensku kennslu með kennara tvisvar í viku. „Enda er hún komin mjög langt á þeim 18 mánuðum sem hún hefur verið hér. Hún fær einnig pólsku kennslu, ég fann fjarnám fyrir hana í Reykjavík en skólastjórinn okkar er mjög jákvæður og skilningsríkur og leyfir mér t.d. að kenna þýskum börnum í grunnskólanum móðurmál sitt einu sinni í viku. Það er einnig verið að kenna þremur börnum sænsku en við erum með börn frá Svíþjóð, Þýskalandi, Póllandi, Spáni, Tælandi og svo eru leikskólabörn frá Englandi.“

Það er ekki eingöngu börnin sem fá tungumálakennslu á svæðinu en Christoph hefur komið að utanumhaldi fyrir íslenskunámskeið fyrir fullorðna. „Samherji er með fiskeldistöð í Silfurstjörnunni og þeir leituðu til mín um að kenna starfsfólki sínu íslensku. Starfsfólkið kemur frá Spáni og Póllandi og tala oft á tíðum heldur ekki góða ensku en það er öryggisatriði að starfsfólk skilji hvert annað og geti gert sig skiljanlegt,“ útskýrir hann.

„Þessi kennsla gengur mjög vel. Ég hef verið með sjö manna kjarnahóp þar sem allir eru mjög áhugasamir og hafa metnað til að læra tungumálið og aðlagast samfélaginu. En auðvitað koma líka nemendur sem ekki hafa áhuga á að læra íslensku. Fyrir mig sem kennara er þetta ótrúlega gefandi; að vera með áhugasaman hóp af fullorðnu fólki sem vill vera þarna og gerir heimavinnuna sína, þú getur rétt ímyndað þér að það er ekki alltaf þannig í grunnskóla,“ segir hann og hlær.

Christoph segist kenna mjög skipulega, nemendur þurfi að læra málfræðireglur og eru farin að kunna að nota hjálparsagnir og nálægt því að átta sig á föllunum. „Þeim finnst þetta mikill hausverkur en þau koma samt alltaf aftur og bæta sig frá viku til viku,“ segir hann og bætir við að í þessum hópi séu flestir búnir að kaupa sér hús og séu tilbúnir til að setjast að á svæðinu til frambúðar.

Christoph telur að tungumálið og geta til að hafa frumkvæði séu lykilþættir að því að aðlagast íslensku samfélagi.

/epe