Húsvíkingurinn Rafnar Orri Gunnarsson vinnur að sinni fyrstu plötu sem mun heita VODA tvö lög af henni eru nú þegar komin í spilun og hafa þau hlotið góðar viðtökur á Youtube. Myndböndin eru afar metnaðarfull. Rafnar Orri hefur fengist við ýmislegt á ferlinum, kvikmyndagerð, fjölmiðlun, hönnun og upptökustjórn svo eitthvað sé nefnt. Hann segist enn vera að komast betur og betur að því hver hann er og að í hafinu megi finna alheims sannleika. Tónlistin og verkið VODA táknar það.

plötuumslag VODA er hannað/teiknað/málað af Dušana Pavlovičová.

„Platan er búin að vera í vinnslu í þrjú ár og hef ég gott sem helgað öllum mínum tíma og orku í verkefnið til að koma þessu öllu heim og saman. Þetta er mikið ævintýri með litríku töfrafólki allt um kring. Þetta var ákvörðun og „mómentun“ að vera tilbúinn að fara all in og taka þetta eins langt og ég mögulega gat. Að geta sagt við sjálfan sig að ég skyldi allt eftir út frá hugsjón sem væri byggð og keyrð áfram á tilfinningu og einhverju sem ég taldi vera einhvers konar sannleika. Að hjarta sigrar alltaf tækni,“ segir hann en verkið er gefið út undir heiti listamannsjálfsins rafnar.

Á næstu dögum sleppir rafnar út þriðja myndbandinu samtímis og hann fer af stað með hópfjármögnun þar sem gefinn verður kostur á því að tryggja sér eintak af plötunni fyrirfram.

„Platan heitir VODA sem þýðir vatn og er það tilvísun í kjarna verksins og því sem hún er byggð á. Platan er „concept“ (e. þema) plata sem þýðir að hún inniheldur 6 lög, 6 listaverk og 6 myndbönd. Öll lögin eru tekin upp í flæði, engar nótur og engar reglur, bara treysta og njóta. Sem sagt algjört flæði sem getur birst í öllum formum og finnur alltaf leið, eins og vatnið. Við mannfólkið erum 70% vatn og það hlýtur að „harmonera“ við eitthvað sem kallast kjarni og upphaf,“ útskýrir rafnar og bætir við: „Það er stór hópur fólks sem kemur fram á plötunni með mér sem dæmi, tveir kórar, stórkostleg óperusöngkona og fleiri og meira sem ég vill ekki gefa upp að svo stöddu. Platan er bæði með söng en einnig eru „instrumental“ lög á henni.

„Concept“ og leikstjórn tónlistarmyndbanda er mest í mínum höndum og Dusku kærustu minnar en hún hannar einnig öll listaverkin fyrir lögin, ásamt okkur hefur svo góðvinur minn Árni Þór Theodórsson verið með okkur í liði og mundað „cameruna“ en hann skaut helming myndbandsverkanna og ég og Duska gerðum svo hinn helminginn.“

Platan er nú komin í forsölu en með því að fylgja hlekknum hér fyrir neðan er hægt að tryggja sér eintak.