Forneskjulegar hraðahindranir eiga stóran þátt í svifryksmengun

Smásaga úr húsvískri umferðarmenningu

Mynd/aðsend.

Björn Sigurðsson skrifar:


Fyrir nokkrum árum kom ég stöku sinnum í heimsókn til hjóna, sem áttu heima á neðri hæð við Laugarbrekku.

Ætíð var notalegt að sitja þar og spjalla og oft var rifa á gluggum þannig að ekki fór það fram hjá neinum nærstöddum að þarna var mikil umferð. Um götuna fóru þungaflutningar af ýmsu tagi því þar óku bílar, sem fluttu kísilgúrinn, alla olíu og efni til og frá fyrirtækjum á Höfðanum ásamt grjóti, sem ekið var í Norðurgarðinn. Að auki var umferð smærri bíla um götuna ótrúlega mikil. Á þessum tíma var ekki búið að opna veginn, sem nú liggur undir bakkanum norður á Hafnargarð.

Í eldhúskróknum hjá fyrrnefndum hjónum var umferðarniðurinn mishár, sem heyrðist vel, án þess þó að trufla samræður. Ekki var um þessa hávaðamengun rætt neitt sérstaklega nema þá helst þegar ökumenn tóku sig til og óku á hressilegum hraða um þessa íbúagötu þar sem mikið var af börnum.

Til að freista þess að stemma stigu við „glæfraakstri“ um götuna, var ákveðið að bregða á það ráð að setja á götuna svokallaða hraðahindrun til að draga úr hraðakstri enda töldu sjálfskipaðir „umferðafræðingar“ slíka hindrun vera eina kostinn í stöðunni til að bæta umferðarmenninguna.

Eftir að framkvæmdum við hraðahindrunina  var lokið og nokkur reynsla komin á tjáði húsfreyjan mér  að eftir að þessi „óskapnaður“ var settur á götuna, væri hún að vakna upp um miðjar nætur við hávaða, sem ekki var áður.

Skýringa var að leita í því að stórir bílar, sem margir hverjir voru líka með vagna í eftirdragi, bremsuðu áður en komið var að hindruninni en þá gat ískrað ámátlega í  bremsum. Þegar svo öll hjól voru sloppin yfir, þurfti auðvitað að gefa rækilega í til að ná aftur upp eðlilegum hraða með þeim afleiðingum að blár eða svartur mökkur rauk gjarnan frá pústkerfinu. Að sama skapi, eftir að hraðahindruninni var komið fyrir, voru gluggar heimilisins svartir af sóti, sem húsfreyjan sýndi mér með því að strjúka eftir gluggakistunni með rökum klút.

Greinarhöfundur telur að þrengingar eins og þessar séu betur til þess fallnar að minna ökumenn á að aka gætilega heldur en hefðbundnar hraðahindranir. Mynd/aðsend.

Niðurstöður rannsóknar, sem birt var fyrir skömmu, leiðir í ljós eftirfarandi sundurliðun á svifryki í andrúmslofti.

  • Salt 3%
  • Bremsur 14%
  • Malbik 17%
  • Aska 18%
  • Jarðvegur 18%
  • Sót 30%

Þessar niðurstöður staðfesta að allt að 44% svifryks í andrúmslofti má rekja beint til bílana sjálfra. Þetta háa hlutfall má minnka verulega með því einu að hætta að nota forneskjulegar hraðahindranir og taka upp í staðinn annars konar hraðatefjandi hindranir, svo sem þrengingar eða ljósastýringar, sem minna okkur ökumenn á að aka gætilega.

Greinarhöfundur telur að þrengingar eins og þessar séu betur til þess fallnar að minna ökumenn á að aka gætilega heldur en hefðbundnar hraðahindranir. Mynd/aðsend.