Hulda Þórey Garðarsdóttir er Þingeyingur Víkurblaðsins að þessu sinni en hún hefur búið fjærri þingeysku lofti um árabil. Við fengum hana til að kynna borgina sína sem er gömul bresk nýlenda í Austurlöndum.

– Hvað dró þig til Hong Kong og hvað ertu búinn að vera lengi?

„Ég kom hingað fyrst með þáverandi eiginmanni mínum, Steindóri sem var þá starfsmaður Sæplasts. Hann vildi gjarnan prófa að búa erlendis og ég lét slag standa að koma hingað, árið 2001 og þá með tvö lítil börn.  Steindór fluttist til Evrópu fyrir nokkru.  Ég hef alla tíð síðan rekið mitt eigið fyrirtæki, ljósmæðraþjónustu sem ég seldi fyrir tveimur árum en þá var ég í kjölfarið ráðin til þess að sjá um sameiningu þess við stærri læknastofu.  Ég sinni því enn þá og er einnig Kjörræðismaður Íslands hér í Hong Kong sem felur í sér allskonar skemmtileg verkefni.  Börnin mín fjögur eru í Evrópu eins og er, en Freyja, sem er 20 ára, er í námi í Edinborg, Starri er í Amsterdam og yngstu tvær búa hjá pabba sínum á Ítalíu þar sem hann rekur hótel.

Það er skringilegt að búa hér ein eftir að hafa alltaf haft stóra fjölskyldu í kring en ég ferðast sjálf mikið og við hittumst oft, bæði hér í Asíu og í Evrópu. Annars sinni ég áhugamálum tengdum náttúruhlaupum mikið og systir mín Rebekka sem býr hér líka er dugleg að draga mig í fjöllin heima hjá henni og einnig í hin ýmsu lönd hér í kring sem er auðvelt að heimsækja og sameina bæði heilsu og menningarferðir.“

Hulda Þórey býr í Kowloon, sem er eitt  þéttbýlasta hverfi borgarinnar, en það tekur um það bil 20 mínútur að keyra frá miðborg Hong Kong.  „Stutt er að fara í grænu svæði borgarinnar en allt í kring eru fjöll og stutt að komast að sjónum, en hér eru margar strendur sem hægt er að heimsækja.  Sjórinn er heitur nánast allan ársins hring og það er auðvelt að sinna allskonar útivist og náttúruáhuga,“ útskýrir hún.

„Hong Kong er borg sem er nokkuð þægileg að því leyti að hér er auðvelt að aðlagast, hægt að finna þann mat sem mann langar í, það skilja flestir ensku og það er mjög auðvelt að ferðast með almenningssamgöngum.  Hér er samt dýrt að búa og flestar íbúðir eru mjög litlar og gjarnan í stórum blokkum.  En á móti kemur að það er hægt að komast hratt á milli staða og oft er skemmtileg sameiginleg aðstaða við íbúðirnar; sundlaug, tennisvöllur og þess háttar.“

Hvað kom þér mest á óvart í Hong Kong?

„Hvað það var auðvelt að aðlagast hér.  Hversu veðrið var geðslegt og hversu mér þótti gott að eiga tiltölulega „einfalt“ líf í nokkur ár.  Auðvelt að ferðast hér og auðvelt að fá vinnu, kynnast fólki og bara setja upp nýtt líf á nýjum stað.“

Hong Kong er mjög vestræn borg þó hér megi finna skemmtilega blöndu af asísku umhverfi og öðru um leið. Menningin er auðvitað asísk að miklu leyti en Hong Kong var bresk nýlenda þar til 1997 og margt hér minnir á þann tíma, auk þess sem hér býr enn mikið af fólki sem upprunalega er ekki frá Asíu.“

Hvers saknar þú mest frá heimslóðum?

„Ferskleikans í loftinu og grasinu og „hreinnar“ moldar.  Fólksins míns.  Lifandi tónlistar.  Kaffibolla með vinkonu, án þess að skipuleggja fyrirfram.  Nándar og sjávarniðs. Að keyra bíl.  Grænnar lautar. Tölts. Birkis. Helga Bónda. Að hlæja hjartanlega að einhverju fáránlegu sem aðeins sveitungar manns skilja.

Hverju mælir þú með fyrir Þingeyinga sem vilja heimsækja borgina?

„Ég er afar léleg í að stinga upp á slíku því sjálfri finnst mér skemmtilegast í borgum að flanera bara um án nokkurs skipulags.  Ég myndi líklega helst leggja til að fólk setji á sig gönguskóna og fari upp í fjöllin sem eru hér allt um kring, taki ferjurnar til nærliggjandi eyja, t.d. Lamma og Lantau, og svo er tignarlegt að horfa yfir bæinn frá Victoria Peak. Peninsula hótelið í síðdegiste, Tram ferð frá Sheung Wan til Happy Valley, Star ferry frá Kowloon til Hong Kong eyju, svo eitthvað sé nefnt.  Sögusafnið er skemmtilegt að koma í og borgin er full af skemmtilegum veitingastöðum – fer allt eftir smekk þar.