Framkvæmdir við Stangarbakka á Húsavík

Útsýnið frá Stangarbakkanum er engu llíkt. Mynd: Sigfús Sigfússon

Í sumar eru fyrirhugaðar framkvæmdir á vegum Orkuveitu Húsavíkur ohf. og Norðurþings við Stangarbakka á Húsavík.

Í tilkynningu segir að verkefni OH miði að því að aðskilja yfirborðsvatn úr fráveitukerfi á Húsavík, en með það að markmiði verður komið fyrir safnlögn eftir Stangarbakka sem mun í framtíðinni taka við stærstum hluta þess yfirborðsvatns sem í dag skilar sér í fráveitukerfi bæjarins.

Samhliða framkvæmdum OH mun Norðurþing láta gera upphitaðan og upplýstan göngustíg eftir Stangarbakkanum svo svæðið nýtist sem best til útivistar fyrir íbúa Norðurþings.

Af öryggisástæðum er gert ráð fyrir þrengingu umferðaræða og tímabundnum lokunum á framkvæmdatímanum og er þeim vinsamlegu tilmælum beint til vegfarenda og íbúa við Stangarbakka, að þeir sýni skilning og tillitssemi meðan á framkvæmdum stendur.

Er þeim sem ekki eiga brýnt erindi um svæðið á meðan framkvæmdum stendur bent á að aka um Garðarsbraut.

Hér má sjá skipulagsuppdrátt af fyrirhugaðri framkvæmd.