Samþykkt var á fundi byggðaráðs Norðurþings á dögunum, tillaga framkvæmdaráðs um að taka upp samning vegna uppbyggingar Katlavallar við Golfklúbb Húsavíkur. Framkvæmdum hefur því verið frestað um óákveðinn tíma vegna þess að fyrirliggjandi kostnaðaráætlun er ekki í samræmi við samning.
Þá kynnti framkvæmda- og þjónustufulltrúi uppfærða kostnaðaráætlun vegna gatnagerðar en ráðið taldi ekki grundvöll að fara í þá framkvæmd þar sem forsendur uppbyggingar húss við Katlavöll séu brostnar. Gatnagerð hefur því verið frestað einnig.

Silja Jóhannesdóttir, formaður skipulags- og framkvæmdaráðs sagði í samtali við Víkurblaðið að samningur sem undirritaður var við Golfklúbb Húsavíkur þann 28. júlí 2018 byggi á lauslegu kostnaðarmati sem Norðurþing lét gera byggt á hönnun frá arkitekt. „Það kostnaðarmat var um 104 milljónir og þar af myndi Norðurþing leggja til 90 milljónir og golfklúbburinn fjármagna afganginn. Í samningunum er kveðið á um að ef útboðsgögn fara langt fram úr áætlun sé hægt að fresta ótímabundið framkvæmd. Ekki kom til þess því að Norðurþing lét gera ítarlegri kostnaðargreiningu á framkvæmdinni byggt á áðurnefndri hönnun og þá kemur í ljós að verulega hefur verið vanáætlað í kostnað og hljóðar áætlun í dag upp á rúmar 183 milljónir. Í ljósi þess taldi Skipulags- og framkvæmdaráð skynsamlegast að fresta framkvæmdinni þar til skýrari fjármögnunaráætlun liggur fyrir,“ útskýrir hún.

Þá bendir Silja einnig á að gatnagerðin hafi verið kostnaðargreind betur. „Þá kom í ljós að greiningin kvað á um 61 milljón fyrir utan lýsingu. Þetta er einnig talsvert hærri upphæð en reiknað var með og ákveðið að geyma þá framkvæmd einnig þar til ljóst er með framhaldið varðandi uppbyggingu á Katlavelli. Þó framkvæmdafé hafi aukist undanfarin ár er margt sem ekki var framkvæmt eða viðhaldið sem þarf að vinna upp og því afar mikilvægt að hugsa allar framkvæmdir Norðurþings vel svo að fjármunum sé vel varið.“

 Að sögn Silju fundaði fimm manna framkvæmdaráð sem var sérstaklega myndað vegna þessarar framkvæmdar, fyrir fund Skipulags- og framkvæmdaráðs þar sem fulltrúar Golfklúbbsins sátu. „Þeim var gerð grein fyrir þessum kostnaðargreiningum. Vonandi er hægt að halda samtalinu áfram og finna nýjan flöt á því að Golfklúbbur Húsavíkur geti fengið húsnæði til framtíðar til samræmis við þarfir en eins og staðan er í dag, þarf að stoppa aðeins og hugsa málin.“

Telur forsendur alls ekki brostnar

Gunnlaugur Stefánsson sem situr í þessu fimm manna framkvæmdaráði segir í samtali við Víkurblaðið að kostnaðargreiningin sem lögð er til grundvallar við frestun framkvæmdanna miði við fullklárað hús. Í samningi GH og Norðurþings sé hins vegar kveðið á um að golfklúbburinn taki við húsinu tilbúnu að utan en fokheldu með rafmagni að innan og hita í gólfum. „Þannig að ég tel alls ekki að neinar forsendur séu brostnar fyrir byggingu skálans,“ segir hann og bætir við að golfklúbburinn tæki við skálanum, leggji síðan til ákveðið framlag í þessum samningi. “Það er nokkuð myndarlegt miðað við svona félagsstarf en við innan klúbbsins erum tilbúin til  að leggja mikið á okkur til að bæta aðstöðuna. Fyrsti hluti skálans var byggður fyrsti hluti fyrir 1970 og því miður er hann bæði orðinn mjög lélegur  og þarfnast mikils viðhalds. Eins sáu menn sóknarfæri í því að færa skálann nær bænum. Ég trúi ekki öðru eftir þessa afgreiðslu nefndarinnar en að menn setjist niður og fari yfir þetta aftur til að finna leiðir til þess að halda þessu metnaðarfulla verkefni áfram. Það er alla vega ekki í stöðunni að hætta við að koma golfklúbbnum í varanlegt og gott húsnæði. Ég held að við ættum að vera metnaðarfull í því vegna þess að við erum hér með einn flottasta golfvöll landsins,“ segir Gunnlaugur og tekur fram að það sé ekki aðeins hans álit heldur sé þetta umsögn golfara sem koma víða að af landinu til að leika golf á Katlavelli.