Framsýn afturkallar umboð sitt

„Fundur stjórnar Framsýnar, trúnaðarráðs og Framsýnar-ung með trúnaðarmönnum félagsins á öllum helstu vinnustöðum á félagssvæði Framsýnar samþykkir samhljóða að afturkalla samningsumboð félagsins frá Starfsgreinasambandi Íslands“

Tillaga um að draga samningaumboð Framsýnar frá Starfsgreinasambandinu var samþykkt einróma á fundi trúnaðarráðs félagsins í gær. Samkvæmt tilkynningu á vef Framsýnar var mikil reiði í fólki en að samskapi einhugur. Félagið hyggst nú fara í samflot með VR, Eflingu, Verkalýðsfélagi Akraness og Verkalýðsfélagi Grindavíkur.

Helstu ástæður þess að Framsýn dregur samningsumboð sitt til baka eru hugmyndir SA um lengingu á dagvinnutímabili, fleytingu á dagvinnu milli vikna/mánaða, breytingum á neysluhléum og yfirvinnuálagi til lækkunnar. Aðalsteinn Á Baldursson, Formaður Framsýnar hefur ítrekað lagst gegn þessum hugmyndum. „Framsýn hefur ítrekað látið bóka andstöðu sína í samninganefnd SGS og krafist þess að hugmyndum SA um vinnutímabreytingar væri vísað út af borðinu, en án árangurs. Önnur félög innan Starfsgreinasambandsins hafa verið tilbúin að skoða frekari útfærslur á þessum breytingum með ákveðnum fyrirvörum,“ segir í bókun fundarins.

Þá var aðkoma stjórnavalda gagnrýnd, að þessi kjaradeila væri tilkomin vegna þess að hér á landi hafi ójöfnuður fengið að viðgangast og aukist jafnt og þétt í mörg ár.

„Framsýn stéttarfélag vill leggja sitt að mörkum til að samningar takist á næstu vikum. Framsýn kallar eftir sátt ekki ófriði. Forsendan að friði er að fullur vilji sé til þess meðal þeirra sem sitja hinum megin við borðið að ná fram ásættanlegum kjarasamningi fyrir láglaunafólk í landinu, svo einfalt er það,“ segir í bókuninni.