Framsýn skorar á stjórnvöld að láta af hroka

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar

Framsýn stéttarfélag skorar á stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins að láta af þeim hroka sem endurspeglast í tillögum þeirra er varðar skattamál, velferðarmál og launahækkanir til lausnar kjaradeilunni. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á félagsfundi stéttarfélagsins í dag.

Þá lýsir Framsýn yfir vonbrigðum með útspil stjórnvalda í formi skattkerfisbreytinga. „Framsýn hafði vænst þess að tillögur stjórnvalda kæmu þeim lægst launuðu best, enda afar mikilvægt að auka ráðstöfunartekjur þeirra umfram aðra hópa launamanna er búa við mun betri kjör,“ segir í ályktuninni.

Ályktunina má lesa í heild sinni hér.

Fyrir fundinum lá tillaga um að félagið afturkallaði samningsumboðið frá Starfsgreinasambandi Íslands og vísaði deilunni til ríkissáttasemjara. Í ljósi atburðarásar dagsins var tillaga þess efnis dregin til baka þar sem viðræðunefnd Starfsgreinasambandsins samþykkti fyrr í dag að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara en Framsýn er aðili að Starfsgreinasambandinu.