Skjálfandi listahátíð verður haldin í Samkomuhúsinu á Húsavík föstudaginn 17. maí.

Þetta er í 8. sinn sem Skjálfandi listahátíð er haldin í Norðurþingi. Hátíðin er samstarfsverkefni fjölmargra einstaklinga, hópa, byggðarlaga og listgreina þar sem heima- og aðkomufólk leiða saman hesta sína með einlægri og fallegri listahátíð í Samkomuhúsinu á Húsavík.

Yfir 50 listamenn taka þátt að þessu sinni en fjölbreytnin verður í fyrirrúmi. Tónlist, myndlist, gjörningar og vídeólist er meðal þess sem gestum verður boðið upp á.

Víkurblaðið í samstarfi við Skjálfanda listahátíð kynnir þátttakendur en nú er komið að ungri húsvískri söngmær og tónlistarkonu sem þrátt fyrir ungan aldur hefur bæði heillað og brætt með hæfileikum og einlægri sviðsframkomu.

Það er Friðrika Bóel sem hér um ræðir, 15 ára hæfileikabúnt sem numið hefur söng í fjögur ár og verið í kór í fimm ár. Friðrika Bóel leikur einnig á gítar, ukulele og píanó.

“Ég hef líka mjög gaman af leiklist og hef komið fram í nokkrum leikritum með Leikfélagi Húsavíkur,” segir Friðrika Bóel.