Gæti skapað 15 störf á Kópaskeri

Undirbúningur fyrir seiðaeldisstöðvar á Kópaskeri hefur staðið yfir um nokkurt skeið

Höfnin við Kópasker. Mynd: epe

Fiskeldi Austfjarða fékk á nýverið heimild til þess að stækka eldið sitt en undirbúningur fyrir seiðaeldisstöðvar á Kópaskeri hefur staðið yfir um nokkurt skeið.  Fyrirtækið rekur nú þegar tvær seiðaeldisstöðvar, eina í Þorlákshöfn og eina í Kelduhverfi við Öxarfjörð. Greint er frá þessu á vef RÚV.

Haft er eftir Guðmundi Gíslasyni framkvæmdastjóra Fiskeldis Austfjarða að kjöraðstæður séu til staðar á Kópaskeri fyrir eldi af þessu tagi. Stefnt er að því að setja upp 16 útiker og byggja 200 fermetra þjónustuhús. Þá kallar Guðmundur eftir því að umsóknarferlið eftir tilskildum leyfum verði gert auðveldara en ferlið sé nú þegar búið að taka langan tíma og á hann von á að það muni taka hálft annað ár til viðbótar.

Fáist öll leyfi fyrir starfseminni munu framkvæmdir hefjast en gert er ráð fyrir að þær muni taka á annað ár. Ef af eldinu verður geti það skapað 15 störf.