Gamla mjólkurstöðin fékk nýtt hlutverk

Húsavík öl
Þorsteinn Snævar Benediktsson, bruggmeistari Húsavíkur. Mynd/epe

Það bættist í flóru veitinga- og afþreyingar á Húsavík í gærkvöld þegar brugghúsið Húsavík Öl opnaði bruggstofu (e. taproom) í húsakynnum gömlu mjólkurstöðvarinnar að Héðinsbraut 4.

Það var allt á útopnu í gömlu mjólkurstöðinni þegar blaðamaður Víkurblaðsins rak þar inn nefið að kvöldlagi fyrir um hálfum mánuði síðan. Þar var bruggmeistari Húsavíkur, Þorsteinn Snævar Benediktsson staddur innan um stillansa og bruggkúta.

Þorsteinn lét gamlan menntaskóladraum sinn rætast þegar hann stofnaði brugghúsið Húsavík öl sem hóf framleiðslu í vor. Hann lærði bjórgerðarlistina í Sunderland og er með diplómu til bruggmeistara. Hann segir viðtökurnar við húsvíska bjórnum hafa verið vonum framar og er nú þegar búinn að setja á annan tug tegunda á markað.

Aðspurður hvenær hann stefndi á að opna leit Þorsteinn í kringum sig og sagði hlæjandi: „Sem fyrst! Við stefndum á það að opna fyrir jól en það held ég að sé að verða hæpið,“ sagði hann og benti á allt það sem enn átti eftir að gera af framkvæmdum. „Sennilega verður þetta á fljótlega á nýju ári.“

Einhver auka kraftur hefur hlaupið í Þorstein eftir að þessi ummæli féllu, því grettistaki var lyft í framkvæmdum. Það var vel mætt þegar staðurinn var opnaður með pompi og prakt í gærkvöldi og sýndur kappleikur á milli enskra sparkíþróttaliða á flatskjá en Þorsteinn kveðst ætla bjóða upp á beinar útsendingar af öllum helstu knattspyrnuleikjum framvegis.

Húsavík Öl er með vínveitingaleyfi til 01:00 í húsinu og markmiðið er að bjóða upp á rólega og þægilega stemningu. Þorsteinn segist ætla rólega af stað og sjá til hver þörfin verður. „Við ætlum að byrja á að hafa opið á föstudegi og fram yfir helgi. Svo kannski opnum við aftur á miðvikudegi vikuna eftir og svo kemur í ljós yfir veturinn hvernig þetta verður,“ segir hann en bætir við að með hækkandi sól muni opnunartíminn lengjast og að í sumar verði opið alla daga og kvöld.

„Ég verð hérna alla daga og Helga Dagný Einarsdóttir, konan mín kemur úr fæðingarorlofi í febrúar. Hún mun verða eitthvað hérna með mér. Svo verður bara að koma í ljós hvort þurfi að bæta við starfsfólki. Ég er eiginlega bara að fara blint í þetta,“ viðurkennir Þorsteinn og brosir.

Ekki ómerkari manneskja en Arnhildur Pálmadóttir arkitekt, hefur verið Þorsteini til halds og trausts. „Hún teiknaði þetta upp og hannaði fyrir mig. Það er búið að vera frábært að vinna með henni en við ætlum að hafa þetta hrátt og reyna að halda útlitinu eins upprunalegu og við getum,“ útskýrir hann og bendir á að Norðurvík sjái um smíðina um leið og hann dælir nýjustu afurð sinni í glas og bíður undirrituðum. „Þetta er Krubbur milkstout, 6% og silkimjúkur, ég viðurkenni það alveg að ég er mjög stoltur af þessum.”