Gjalddögum fasteignagjalda í Norðurþingi hefur verið fjölgað úr sjö í níu en gjalddagar fasteignagjalda hafa til þessa verið mánaðarlega frá 1. febrúar til 1. ágúst ár hvert en verða nú mánaðarlega frá 1. febrúar til 1. október ár hvert. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sveitarfélagsins.

Það er vel þekkt innan annarra sveitarfélaga að gjalddagar séu á bilinu átta til tíu. „Þessar breytingar eru hugsaðar til hagræðis fyrir íbúa. Eftir umræður við starfsfólk sveitarfélagsins var ákveðið að fjölga gjaldögum þó ekki meira en upp í níu vegna aukinnar vinnu sem í því felst. Með því að fjölga gjalddögum úr sjö í tíu, þá lækkar mánaðarleg greiðslubyrði  fólks, þá fær það inn meiri dreifingu á gjöldunum,“ útskýrir Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, 2. varaforseti sveitarstjórnar Norðurþings í samtali við Víkurblaðið.

Sem dæmi þá verða greiðslur hvers mánaðar, af fasteignagjöldum sem eru 300.000, krónur: 33.333 krónur á mánuði í stað 42.857 króna.

„Fasteignagjöldin voru auðvitað að hækka örlítið hjá okkur út af hækkandi fasteignamati við erum að reyna koma til móts við það,“ segir Kolbrún Ada jafnframt.

Einnig hafa reglur um afslátt á fasteignagjöldum verið uppfærðar og tekjuviðmið uppfærð. Reglurnar má nálgast hér