Það er óhætt að fullyrða að fátt hefur vakið jafn mikla athygli á Húsavík undanfarna daga en rauði liturinn á þaki Húsavíkurkirkju.

Húsvíkingar, brottfluttir, aðfluttir og bara alls ekkert fluttir stigu fram á spjallsíðum veraldarvefsins í kippum og torfum eftir að myndir tóku að birtast þá þeim vettvangi af rauðhöfðaðri Húsavíkurkirkju.

Sitt hefur hverjum sýnst um litabreytinguna, þó nokkrir hafa lýst yfir andúð sinni á litnum og kallað gjörninginn helgispjöll. Þá eru nokkrir sem netverjar sem skrifað hafa fagnaðaróp á Facebooksíður Húsvíkinga yfir því að framsóknarliturinn sé loksins horfinn af kirkjunni. Ekki er vitað með vissu hvort yfirlýsingarnar atarna voru settar fram í gamni eða alvöru.

Ljósmyndari Víkurblaðsins átti leið hjá kirkjunni fyrr í dag og hugðist festa mannvirkið á digítalíska ljósmyndafilmu og gekk þar fram á málarameistara Fagmáls sem var þar sposkur í kirkjubakgarðinum og bograði yfir málningarsprautu. Ljósmyndarinn sem jafnframt er fréttaritari gaf sig á tal við meistarann og spurði hann hvort virkilega stæði til að breyta litnum á þaki Húsavíkurkirkju. Málarameistarinn sagðist strax hafa heyrt spurninguna margsinnis áður á undan förnum dögum og honum virtist ekkert leiðast að heyra hana eina ferðina enn. Hann hló við með bakföllum en staðfesti loks þegar hann hafði náð andanum að rauði liturinn væri að sjálfsögðu ekkert annað en grunnur en hafi fengið að standa óyfirmálaður lengur en til stóð vegna vætutíðar. Aftur tók málarameistarinn bakföll af hlátri þegar fréttritari tjáði honum að þá myndu framsóknarmenn anda léttar; þeir hafi verið orðnir áhyggjufullir yfir því að missa græna litinn sinn af þaki kirkjunnar. Í gegnum ofsafengin bakföll og hláturrunur tókst málarameistaranum loks að hvísla því út úr sér að græni liturinn á kirkjunni væri reyndar búinn að tilheyra öðrum stjórnmálaflokki í all nokkur ár, þeim græna flokki sem situr í meirihluta sveitarstjórnar. Framsóknarmenn mættu því halda í sínar áhyggjur hans vegna.

En eftir stendur að Húsavíkurkirkja verður með grænt þak hér eftir sem áður.