Texti: Sigrún Aagot Ottósdóttir


Efling er ungmennafélagið í Reykjadal og innan þess starfar Leikdeild Eflingar sem hóf æfingar á leikriti sem verður frumsýnt þann 9. febrúar í Félagsheimilinu í Breiðumýri. Blaðamaður Víkurblaðsins fékk að líta inn á æfingu og átti erfitt með að halda aftur af hlátrasköllunum.

Fanney Vala Arnórsdóttir

Í Reykjadal er nóg um að vera, en Leikdeild Eflingar hóf æfingar á hinu bráðfyndna leikriti „Brúðkaupi“ eftir Guðmund Ólafsson, 10. janúar síðastliðinn. Reykdælingurinn Fanney Vala Arnórsdóttir leikstýrir Brúðkaupi, en hún er nýflutt til Íslands eftir 10 ára búsetu í Englandi. Þar menntaði hún sig í leikstjórn og leiklist, en hún leikstýrði og framleiddi í gegnum sitt eigið fyrirtæki þar ytra.

Frumsýning á laugardag

Fanney Vala segir að þetta leikrit fjalli um frekar óhefðbundna íslenska fjölskyldu, þar sem allt fer í bál og brand. Það er nóg að gera hjá leikurunum, æfingar eru 4-5 sinnum í viku og frumsýning er 9. febrúar og sýningar verða fram að páskum.

Ákveðinn kjarni sem kemur alltaf aftur

Fanney Vala segir að það sé nóg framboð af leikurum í sveitinni: „Það er fólk í sveitinni sem er algjörlega dedicated og kemur ár eftir ár“. Einnig nýtur sveitin góðs að því að Framhaldsskólinn að Laugum er í nágrenninu, en það eru ungmenni þaðan að taka þátt í sýningunni, ásamt fólki úr sveitinni, segir Fanney Vala

Jakob Ágúst Róbertsson/ brúðguminn Bjarni Þór

Jakob Ágúst er nýliði Leikdeildar Eflingar. Hann leikur eitt aðalhlutverk leikritsins, brúðgumann Bjarna Þór. „Bjarni Þór er svolítið tens, hann er að gifta sig og það er allt að fara úr böndunum. Hann reynir að halda ró sinni og fær frænda sinn til að hjálpa sér í brúðkaupinu, sem nær að klúðra öllu sem hægt er að klúðra,“ segir Jakob.

Leiklistaráhuginn kviknaði um 10 ára aldur

Jakob segir að þegar hann var 10 ára hafi hann séð leikrit í Breiðumýri og það er fyrsta leikritið sem hann man eftir. Amma hans Jakobs, Elín Kjartansdóttir í N

Jakob Ágúst Róbertsson. Mynd: Sigrún Aagot Ottósdóttir

orðurhlíð, hefur verið virk í leikdeildinni í gegnum tíðina: „Amma var alltaf að leika hérna og ég fylgdist með henni, var oft heima þegar hún var að læra texta,“ segir Jakob. Þegar Elín var á leiðinni á leikæfingu spurði hún Jakob hvort hann vildi ekki koma með og Jakob sló til – hann segist aldrei hafa séð ömmu sína svona orðlausa.

„Ég tók síðast þátt í leikriti þegar ég var í 5. bekk. Ég hætti aðallega vegna þess að ég var útundan í hópnum. Var ekki vinsæll í skólanum og bjóst ekki við því að neinn vildi tala við mig, þannig ég bara sleppti því“, segir Jakob, hann langaði alltaf til að leika og ákvað því núna að stíga aftur á svið.

Miðasala hefst 3. febrúar og hægt er að panta miða a leikdeild@leikdeild.is og í síma 618-3945.