Bleikju­stofn­inn í Mý­vatni hef­ur tekið við sér síðustu ár en bein­ar veiðar hafa verið í lág­marki í vatn­inu frá 2011 og vetr­ar­veiðar aðeins í tvær vik­ur fyrri hluta mars.

Tak­mark­an­ir hafa verið gerðar á veiðitíma, veiðisvæðum og möskvastærð í samstarfi á milli veiðiréttarhafa og Hafrannsóknastofnunar í þeim tilgangi að byggja stofninn upp. Svo virðist vera að það sé að takast ef marka má orð Helga Héðinssonar, formanns Veiðifélags Mývatns í samtali við Víkurblaðið en hann segir að veiði í vetur hafi verið betri en í mörg ár. Nýliðun hafi auk­ist á ný og stofn­inn stækkað.

Fyrir aðeins fáum árum var sagan önnur og höfðu menn áhyggjur af lífríki vatnsins ekki aðeins af erfiðleik­um bleikj­unn­ar en veiðin svo gott sem hrundi, held­ur virtist kúlu­skít­urinn einnig hafa horfið. Nú eru horfurnar að því er virðist jákvæðari og veiði að glæðast.

„Hlutfall af riðsilungi hefur verið mjög hátt en það er silungur sem er búinn að fara á rið og hrygna sem er vísbending um að það sé endurnýjun. Þetta bætist svo ofan á jákvæða veiði og nokkuð góðar horfur í vatninu sem hefur verið mikið til friðað í tíu ár eða svo. Við erum að sjá jákvæð merki í fiskistofnunum,“ útskýrir Helgi

„Það endar örugglega með að við fáum að veiða meira en ég treysti mér ekki til að segja til um hvort það verði í ár, á næsta ári eða eftir tvö ár. Það virðist alla vega vera styttast í það að óhætt sé að veiða meira,“ segir Helgi en bendir á að hér spili inn í flókið  samspil veiðiréttarhafanna og yfirvalda sem setja ákveðnar reglur. „Þannig að ég treysti mér ekki til að segja til um það fyrr en búið er að halda aðalfund í Veiðifélaginu og samþykkja nýtingaráætlun, en það þarf að leggja hana fyrir Fiskistofu,“ segir hann aðspurður um hvort hann telji yfirvöld líkleg til að létta á friðun vatnsins. „Veiðin hefur verið með því besta sem við höfum séð í þó nokkurn tíma, vel yfir langtímameðaltali og jákvæðar horfur þegar maður sér holdarfar og ástandið á silungnum.“