Hjálmar Bogi Hafliðason.

Á aðalfundi Golfklúbbs Húsavíkur sem nýlega var haldinn var Hjálmar Bogi Hafliðason endurkjörinn formaður klúbbsins.

Sigurjón Sigurðsson kom nýr inn í stjórn en auk þeirra skipa Karl Hannes Sigurðsson, Gunnlaugur Stefánsson, Birna Magnúsdóttir, Jón Elvar Steindórsson og Ragnar Emilsson stjórn klúbbsins.

Jóhanna Guðjónsdóttir lét af störfum í stjórn og var henni þakkað starfs sitt í þágu klúbbsins og golfíþróttarinnar.

Í tilkynningu segir að klúbburinn hafi undirbúið og hyggi á uppbyggingu á nýju húsnæði norðan Þorvaldsstaðaár á svokallaðri Flesju. Klúbburinn gerði uppbyggingarsamning við Norðurþing á síðastliðnu ári vegna þessa. Katlavöllur hefur mikið aðdráttarafl og nýtt húsnæði mun sóma sér vel með útsýni yfir völlinn og til hafs.

Farið var yfir nýjar og breyttar golfreglur á fundinum. Klúbburinn er opinn öllum enda hefur verið lagt upp með að kynna nýliðum völlinn sem og ungum iðkendum. Golfið hentar öllum til iðkunar og með tilkomu nýs vallarhúss verður starfsemi klúbbsins virk árið um kring.