Leikfélag Húsavíkur frumsýndi í gær leikverkið BarPar eftir Jim Cartwrigt í Samkomuhúsinu.

Leikritið gerist, eins og nafnið bendir til, á ónefndri krá eina kvöldstund og fá áhorfendur innsýn í líf hjóna sem eiga krána og nokkurra bargesta sem reka nefið inn þetta kvöld.

Benóný Valur Jakobsson og Jóna Björg Arnardóttir leika hjóni­n sem virðast hata hvort annað – hún daðrar skammlaust við alla gestina og drekkur út gróðann á meðan hann reynir að hafa stjórn á hlutunum. Skrautlegir og óvæntir gestir setja strik í reikninginn og hafa mikil áhrif á þau hjónin.

Verkið fer af stað sem gaman-drama, með bráðfyndnum senum en strax í upphafi fær áhorfandinn á tilfinninguna að eitthvað meira sé í vændum. Eitthvað djúpt og sárt.

Verkið fjallar þegar á öllu er á botninn hvolft um mannlega bresti, sorgir og tilfinningar sem aldrei fá að komast út úr myrkrinu. Um manneskjurnar sem eru beygðar og bugaðar undan þunga sorganna og leita skjóls fyrir þeim á botni bjórglasa og göróttra hanastéla.

Leikstjóri verksins er Vala Fannell og leikarar eru sjö talsins en hlutverkin fjórtán.

Nánar verður fjallað um sýninguna í Víkurblaðinu #8 sem kemur út á fimmtudag.