Kísilver PCC á Bakka framleiðir kísilmálm og flytur úr landi en nú stefnir í að fleiri afurðir rati á erlenda grundu frá verksmiðjunni, nefnilega hljóðið frá starfseminni.

Hulda Rós Guðnadóttir.

Íslenska listakonan Hulda Rós Guðnadóttir er orðin þekkt í alþjóðlegu samtímalistasenunni sem „Hafnarlistakonan“. Víkurblaðið tók Huldu Rós tali sem útskýrði fyrir blaðamanni hvernig viðurnefnið er tilkomið og hvernig hún tengist kísilverinu á Bakka.

„Þetta er löng saga sem byrjaði á því að ég var í nokkur ár að vinna að listrannsóknarverkefni sem hét Keep Frozen. Þekktasta verkið úr því er heimildarmyndin Keep Frozen sem fjallar um löndun í Reykjavíkurhöfn. Sem hluti af verkefninu heimsótti ég fjölda hafna meðfram Norður Atlantshafinu alveg frá New York vestan megin til Afríku suðaustan megin og á Íslandi þar á milli,“ útskýrir hún en þaðan er viðurnefnið „Hafnarlistakonan“ komið.

Smelltu hér til að greiða fyrir Víkurblaðið

Í kjölfarið var Huldu Rós boðið til Suðaustur Ástralíu að rannsaka höfn þar sem verið var að flytja út kísilsand úr kísilnámu skammt þar frá. „Skömmu síðar fór ég að heyra af opnun kísilvinnslu á Íslandi, bæði á Bakka og svo fyrir sunnan. Mér fannst þetta áhugavert, sérstaklega þar sem vinnslan á Bakka er í eigu þýsks fyrirtækis en ég bý sjálf í Þýskalandi.“

Hulda Rós heimsótti kísilversmiðjuna á Bakka og Þeistareykjavirkjun síðastliðið sumar þar sem hún fékk að skoða, taka myndir og vídeóklippur. „Í Berlín var ég hluti af hraðla-prógrammi fyrri myndlistarmenn sem heitir Künstlerhaus Bethanien og hitti mikið af sýningastjórum. Í nóvember notaði ég tækifærið og fór yfir myndirnar og prentaði út nokkrar og sýndi þegar ég fékk heimsóknir til að fá viðbrögð,“ segir hún og bætir við að áhuginn sé mikill.

Það var síðan í janúar á þessu ári að Hulda Rós var með einkasýningu í Künstlerhaus Bethanien. Á sýninguna kom Antonia Alampi, einn af  listrænum stjórnendum Savvy Contemporary,  sem er mjög þekkt sýningar- og rannsóknarstaður í Berlín. „Hún fékk túr um sýninguna og tók sérstaklega eftir vídeóverki sem ég hafði unnið í Reykjavíkurhöfn þar sem listamaðurinn vafrar um höfnina sem lundi,“ útskýrir hún en það var Guðný Guðmundsdóttir sem hafði samið hljóðið fyrir verkið. „Antonia Alampi var mjög hrifin af verkinu og hljóðheiminum og pantaði  hljóðverk fyrir Kuppelhalle,“ útskýrir Hulda Rós en um er að ræða gamla kapellu sem er hluti af menningarkomplexinu þar sem Savvy er með sitt sýningarrými.

Kapellan er með kúpta hvelfingu sem gefur góðan hljómburð. „Hún pantaði hljóðverk byggða á þessu rannsóknarverkefni sem ég er að fara að leggja út í núna en vinnutitillinn er S-I-L-I-C-A,“ segir Hulda Rós og bætir við að sérstaklega hafi verið beðið um að verkið yrði unnið í  samvinnu við Guðnýju. Í tengslum við þetta verkefni munu þær taka upp hljóð í verksmiðjunni á Bakka  sem verða notuð sem fóður eða byggingareiningar í hljóðverkið. Listagjörningurinn verður sýndur einu sinni í Savvy í október en verkið verður einnig hluti af sýningu norrænu sendiráðanna í Berlín en sú sýning mun standa yfir í nokkra mánuði. „Þar er ætlunin að sýna efni og ljósmyndir, líka frá Bakka og Þeistareykjum. Síðan verður sýning í suður-Þýskalandi í nóvember í rými sem fyrrverandi stjórnandi Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar rekur,“ segir Hulda Rós að lokum.