Kristján Þór
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings

Ég hef mikla trú á því að ýmislegt í sveitarfélaginu geti laðað að ferðmenn, innlenda sem erlenda. Sjóböðin á Húsvík eru nýjasta aðdráttaraflið, en viðtökurnar við þeim hafa verið frábærar. Dettifoss og nærsvæðið þar í kring er auðvitað lykilsvæði fyrir okkur til lengri tíma litið og það er ánægjulegt að loks sjái fyrir endann á framkvæmdum við nýjan veg sem tengir Kelduhverfið og öræfin um Jökulsárgljúfrin og Dettifoss. Akfær tenging ætti að vera klár næsta haust ef allt gengur eftir m.v. núverandi plön,“ segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings í samtali við Víkurblaðið.

Kristján segir sveitarfélagið ýmislegt geta gert til að liðka fyrir vexti grenarinnar. Hann nefnir að í síðustu viku hafi sveitarstjórn samþykkt samning við Húsavíkurstofu um aukna markaðssetningu svæðisins. „Ákveðið hefur verið að sveitarfélagið leggi til fjármuni sem eru ígildi starfs framkvæmdastjóra þeirrar stofu sem á að geta eflt markaðsstarf og kynningu á einmitt því sem sveitarfélagið og svæðið í heild hefur uppá að bjóða. Það er mjög gleðilegt að samstarf sveitarfélagsins og fyrirtækja á svæðinu hafi gert þetta að veruleika,“ segir hann.

Aldeyjarfoss í vetrarbúningi. Mynd: Kristinn Ingi Pétursson/KIP.is

Er ferðaþjónusta yfir vetrarmánuðina eitthvað sem hefur verið skoðað í sambandi við verkefnið brothættar byggðir?

„Já, það hefur verið rætt m.a. í verkefnisstjórn og á íbúafundum, en þar hefur kannski mest farið fyrir mikilvægi Dettifossvegar í þessu samhengi. Jafnframt er Heimskautsgerðið að verða meira og öflugra aðdráttarafl eftir því sem það byggist meira upp. Nú síðast var malbikað bílastæðið við gerðið og unnið er að nýrri aðkomu, svokallaðri Bifrastarbrú inn að gerðinu sem vonandi verður hægt að taka í notkun á næsta ári. Eftir því sem fleiri áhugaverðir áfangastaðir byggjast upp innan okkar sveitarfélags, þeim mun meiri líkur eru á því að fleiri ferðamenn heimsæki okkur allt árið um kring.“

Kristján bætist í hóp fleiri viðmælenda Víkurblaðsins sem benda á mikilvægi millilandaflugs til Akureyrar eða Egilsstaða auk þess að betri tengingar innanlandsflugs frá þessum stöðum til Keflavíkur verði að veruleika. „Það er frumforsenda fyrir aukningu vetrarferðamennsku að mínu mati. Þá er það mjög gleðilegt að forsendur séu fyrir reglulegu flugi inn til Húsavíkur og að um okkar ágæta flugvöll fari yfir 18 þúsund manns á ári. Það er líka enginn skortur á flugferðum milli Akureyrar og Reykjavíkur. Það er hins vegar alltof dýrt fyrir almenna farþega að nýta sér þennan ferðamáta og það verða að koma til aðgerðir ríkisins svo innanlandsflugið sé raunverulegur valkostur fyrir erlenda ferðamenn og íbúa utan höfuðborgarinnar. Vonandi sjáum við úrbætur hvað þetta varðar í nánustu framtíð. Sveitarstjórnir á svæðinu, bæði í Þingeyjarsýslum og í Eyjafirði hafa sýnt samstöðu um mikilvægi flugsamgangnanna og barist fyrir úrbótum, viðhaldi og nýframkvæmdum bæði á Húsavíkurvelli og á Akureyrarflugvelli sem verður að komast í betra stand m.t.t. millilandaflugsins. Það er óskandi að sú fjölgun beinna fluga til Akureyrar í vetur samanborið við í fyrra gangi vel fyrir sig, því meginforsenda fyrir aukinni vetrarferðamennsku í okkar sveitarfélagi er eins og fyrr segir að hingað fljúgi fleiri gestir beint inn á svæðið.“

 

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here