Það bætist senn í gisti- og afþreyingaflóruna fyrir ferðafólk jafnt sem innfædda en Huld Hafliðadóttir, jógakennari opnar snemma á næsta ári jóga- og hugleiðslusetur ásamt eiginmanni sínum, Jóhanni Gunnari Sigurðssyni.

Ég opnað heimasíðuna mína í vor Spirit North.is og var hún og heildarhugmyndin Spirit North fyrst og fremst hugsuð sem umgjörð um jógakennsluna mína en einnig með möguleika á að víkka og breikka,“ segir Huld.

Huld
Huld Hafliðadóttir. Mynd/epe

Síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar eins og hún kemst sjálf að orði. „Við hjónin erum að útbúa lítið jógasetur með fjórum gistirýmum í íbúð sem við eigum. Jóga- og hugleiðslusetrið er hugsað sem aukið framboð á þjónustu og afþreyingu fyrir heimamenn en ekki síður fyrir ferðamenn sem hingað koma. Þannig gæti það stutt við ferðaþjónustu allan ársins hring. Setrið er liður í því að ýta undir meiri upplifun, innihaldsríkari ferðir og hægari ferðamáta (e. slow travel). Nálægð við náttúru er mikil, en setrið verður í örstuttu göngufæri við Skrúðgarðinn, auk fallegra gönguleiða upp Húsavíkurfjall og að Botnsvatni,“ útskýrir Huld og bætir við að áhersla verði lögð á kyrrð og slökun.

Að sögn Huldar, stefnir hún að því að auka enn á framboð af tímum fyrir heimafólk auk þess sem komum gestakennara verður fjölgað. „Jógakennarar ferðist talsvert um og kenna styttri námskeið. Það verður því möguleiki á að hýsa styttri og lengri námskeið. Slíkt eykur framboð af heilsutengdri afþreyingu fyrir heimafólk auk þess að bjóða upp á iðkun fyrir breiðari aldur, allt frá börnum til eldri borgara.

Spirit North
Spirit North

Norðurþing gerðist nýlega heilsueflandi samfélag og að sögn Huldar rímar þessi þjónusta vel við markmið sem í því felast. Þá hefur ásókn í jóga og hugleiðslu aukist verulega síðustu misseri, sem og eftirspurn eftir slökun og rými til slökunar. „Möguleikinn á að fá fleiri staðbundna jógakennara til starfa verður einnig meiri, þar sem fullbúin aðstaða verður til staðar. Fyrir ferðamenn er um að ræða mismunandi útgáfur af afþreyingu og heilsutengdri ferðaþjónustu eða upplifun. Má þar t.a.m. nefna hugleiðslugöngur (mindful walks) um Skrúðgarðinn, fjallið eða aðrar nálægar perlur. /epe