Vel heppnuð æfingaferð kvennaliðs Völsungs í fótbolta til Spánar er nú að baki þar sem stelpurnar nutu sín við frábærar aðstæður. Greinin birtist fyrst í Víkurblaðinu #11 – 25. Apríl sl.

Kvennalið Völsungs ætlar sér stóra hluta í 2. deildinni í sumar. Aðsend mynd.

Við vorum á Salou á Spáni,“ sagði Harpa Ásgeirsdóttir reynslubolti í liði Völsungs í samtali við Víkurblaðið að ferðinni lokinni. Hún segist jafnframt full tilhlökkunar að hefja leik í 2. deildinni en fyrsti leikur Völsungs er 11. maí gegn Leikni í Reykjavík. Þjálfari liðsins er John Henry Andrews líkt og í fyrra.

„Við vorum í sjö daga og það er óhætt að segja að ferðin hafi þjappað hópnum vel saman. Það komust allar stelpurnar með nema ein. Fyrsta markmiðið okkar er bara að taka einn leik í einu og vinna hann. Við sjáum svo til hverju það skilar okkur,“ segir Harpa diplómatískt en viðurkennir að það sé hugur í öllum leikmönnum liðsins að fara upp um deild. „Okkur finnst við eiga erindi ofar, það er mjög mikið af efnilegum stelpum í hópnum og það er mjög mikill spenningur í okkur.“

Harpa segir að þetta sé önnur æfingaferðin sem kvennaliðið fer í. „Sú síðasta var farin 2008 eða minnir mig en við erum tvær í hópnum núna sem erum búnar að fara í báðar ferðirnar,“ segir hún og bætir við að hún vonist til þess að styttra sé í næstu æfingaferð. „Já ég myndi segja að það væri lágmarkið að fara í svona æfingaferðir annað hvert ár. Það er algjör snilld að komast í svona topp aðstæður og æfa í góðu veðri.“