LEIÐARI

Egill P. Egilsson

Í blaðinu í dag er meðal annars reynt að taka púlsinn á félagsstarfi í Þingeyjarsýslum, jafnt hjá ungum sem öldnum og það er af nógu að taka. Sveitarfélögin standa sig vel á mörgum sviðum þegar kemur að því að halda utan um og styðja við félagsstarf íbúanna. En eins og gengur er víða pottur brotinn einnig og erfitt að gera öllum til hæfis.

Þegar kemur að félagslífi fyrir alla fjölskylduna þá er fátt sem toppar skíðaíþróttina. Undirritaður ólst að mörgu leyti upp í Skálamelnum og Stöllunum, skíðaparadís Húsvíkinga til margra ára. Þvílík forréttindi sem það voru að geta smellt svigskíðunum á sig í hlaðinu heima og rennt sér spottakorn að skíðasvæði bæjarins. Þetta gerði maður dag eftir dag, eftir skóla og fram á kvöld og um helgar frá morgni til kvölds.

Hver af minni kynslóð man ekki eftir fúalyktinni inni í gamla skíðaskálanum í bland við kakó og ostasamlokulykt? Þarna voru líklega flest börn bæjarins alla daga og margir fullorðnir einnig.

Undanfarin ár hefur tíðin verið önnur. Nú orðið þykir gott ef skíðalyftan opnar yfir höfuð í nokkra daga yfir veturinn vegna snjóleysis. Ég hugsa að fjöldi barna í Norðurþingi sem stundar skíðaíþróttina (þá er ég sérstaklega að meina alpagreinarnar) að einhverju ráði í dag, sé álíka mikill og fjöldi þeirra barna sem stunduðu hana ekki hér í denn; sem sagt afar fá. Enda þarf að keyra sig inn á Akureyri hið minnsta til að komast í góða skíðabrekku. Þar hefur reyndar snjóleysi einnig gert fólki erfitt fyrir.

En þarf þetta að vera svona? Það er ekki nema um 10 -15 mínútna akstur í sannkallaða skíðaparadís uppi á Reykjaheiði. Þar er yfirleitt vel af snjó allan veturinn. Þar hefur nú þegar risið svolítil aðstaða, rafmagn, rennandi vatn og síðast en ekki síst malbikaður vegur. Við erum að sjálfsögðu að tala um skíðasvæðið við Reyðarárhnjúk sem áhugamenn um gönguskíði hafa byggt upp á undanförnum árum, að  mestu eða öllu leyti í sjálfboðavinnu. Þarna vantar bara skíðalyftu í hnjúkinn og þá væri Norðurþing strax búið að klifra hærra upp í stiga sveitarfélaga sem ákjósanlegt er að búa í. Þetta væri frábær lífsgæðaviðbót fyrir þá íbúa sem nú þegar búa á svæðinu en einnig þá sem eru að hugsa um að flytja hingað.

Þá getur gott skíðasvæði líka verið frábært markaðssetningaragn fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu. Var ekki sveitarfélagið Norðurþing fyrir skemmstu að búa til nýtt starf; forstöðumaður Húsavíkurstofu sem m.a. er ætlað að koma Húsavík á kortið sem heilsársáfangastað ferðamanna.

Var ekki einhver hótelkeðjan að fjárfesta fyrir formúu í steinsteypu og innréttingum fyrir skemmstu. Og í kjölfarið að státa sig af glæsilegasta ráðstefnuhóteli landsbyggðarinnar. Svo gengur ekkert að fylla herbergin yfir veturinn? Og eru ekki fleiri glæsihótel á teikniborðinu?

Eflaust eru líka einhver ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu sem gætu hugsað sér að verja tíma sínum og fjármunum í eitthvað annað en að rífast eins og ómálga börn um lengd á flaggstöngum, staðsetningu veggja, miðasöluskúra og annarra aðstöðurýma.

Eitt sinn sofnaði ég ölvímu og dreymdi þá undarlegan útópískan draum: Ég var staddur á Húsavík í hliðstæðri vídd, allir hjálpuðust að og hugsuðu um hag heildarinnar og þannig var jafnframt hagsmunum einstaklinganna best borgið. Fyrirtækin á svæðinu réru í sömu átt til að búa sér og öðrum til betra rekstrarumhverfi og lífsgæði.

Í þessum  heimi  voru líka fyrirtækin sem gerðu út mannskap til sjós í flóanum rausnarleg þegar kom að því að styðja við bakið á Björgunarsveitunum á svæðunum. Það þurfti ekki gamla klúbbakarla til að fjármagna sjóbjörgunarútbúnaðinn sem björgunarsveitin þurfti á að halda til að bjarga fólki úr sjávarháska ef eitthvað kæmi fyrir í sjóferðunum á flóanum.

En svo vaknaði ég og það var enn sama helvítis rokáttin undir hverjum vegg. Æ, mikið væri nú samt gaman ef ferðaþjónustufyrirtækin og önnur fyrirtæki myndu sameinast um að byggja upp glæsilegt skíðasvæði við Reyðarárhnjúk sem jafnframt væri hægt að nota sem agn til að auka straum ferðamanna til svæðisins öllum til hagsbóta. Og hvernig væri ef meirihluti sveitarstjórnar myndi kíkja niður í kjallara hjá sér og finna pólitískan vilja til að hrinda slíku verkefni úr garði og veita því forystu í samvinnu við ferðaþjónustuna.

Hver myndi ekki vilja eyða fjögurra daga helgi á Húsavík. Kaupa flug og gistingu til að njóta  fjölbreytni í mat og drykk á öllum þeim aragrúa veitingastaða sem bærinn hefur upp á að bjóða. Komið við í mjólkurstöðinni og fengið sér húsvískan gæðabjór, flatmagað í Sjóböðunum undir dansandi norðurljósasýningu eftir vel heppnaða skíðaferð í Reyðarárhnjúk. Og sofið svo sæll, saddur og meyr á einu af lúxushótelum svæðisins.

Ég held að Húsavík geti vel orðið ferðamannaparadís allt árið um kring.