Húsvíkingurinn Kristján Breiðfjörð Svavarsson er með masterspróf í landslagsarkitektúr og B.A póf í arkitektúr. Hann er búinn að koma sér fyrir í Longyearbyen á Svalbarða ásamt sambýliskonu sinni Sólveigu Önnu Þorvaldsdóttur og strákunum þeirra, Þorvaldi Kára 9 ára og Bjarka Rafni 3 ára. Þau eru búin að búa á þessum sérstæða stað í rúmt ár og líkar vel.

„Nú er maður kominn á „terretoríið“, Svalbarða,“ segir Kristján glettinn eins og honum einum er lagið. „Við kærastan mín höfum alltaf horft til þess að gera eitthvað exótískt. Hún fékk tannlæknastöðu hérna og við hin fylgdum bara með“.

Kristján vinnur sjálfstætt sem arkitekt og hönnuður og hefur verið að sanka að sér  hönnunarverðlaunum vítt og breitt. Síldarvinnslan efndi nýverið til samkeppni um gerð minningareits á austasta hluta gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað sem eyðilagðist í snjóflóði 20. desember 1974. Átta tillögur bárust og voru þær metnar af dómnefnd sem skipuð var Guðnýju Bjarkadóttur skrifstofustjóra Síldarvinnslunnar, Björku Þórarinsdóttur stjórnarmanni í Síldarvinnslunni og Önnu Berg Samúelsdóttur umhverfisstjóra Fjarðabyggðar.

Niðurstaða nefndarinnar var samhljóma um að tillaga Kristjáns hafi borið sigur úr býtum. Eins var það mat dómnefndarinnar að hluti tillögu Ólafíu Zoëga skyldi einnig hljóta verðlaun, annars vegar fyrir vel útfærða tengingu minningareitsins við hafið og hins vegar fyrir nafnið „Á milli flóðs og fjöru“ sem dómnefndin taldi hæfa minningareitnum framúrskarandi vel. Í ljósi þessa var peningaverðlaunum að upphæð 600.000 kr. skipt á milli tveggja verðlaunahafa. Í hlut Kristjáns Breiðfjörð Svavarssonar komu 400.000 kr. og í hlut Ólafíu Zoëga 200.000 kr.

KBS
Kristján á góðri stundu með vini sínum Richard Dormer

Umsögn dómnefndar um vinningstillöguna er svohljóðandi: „Stílhrein útfærsla með sterka staðarvitund; endurtekin hringlaga form endurspegla lögun tanka fiskimjölsverksmiðja og gamla gufuketilsins. Öldur í grasi líkjast öldum skafrennings og brimi sjávar með skírskotun til snjóflóðsins og hafsins. Hér er ekki einungis um að ræða minningareit heldur fallegan áningarstað, jafnt fyrir kyrrðarstund sem útivist.“

minnigarreitur
Umsögn dómnefndar um vinningstillöguna er svohljóðandi: „Stílhrein útfærsla með sterka staðarvitund; endurtekin hringlaga form endurspegla lögun tanka fiskimjölsverksmiðja og gamla gufuketilsins

Þá vann Kristján einnig þriðju verðlaun í samkeppni fyrir Landsvirkjun um verk sem á að standa á Þeistareykjum. Það verk, sem kallast Móri vann hann ásamt tveimur félögum sínum þeim Röðli Rey Kárasyni og Snorra Tryggvasyni. Verkið má sjá á sýningu á Safnahúsinu á Húsavík. „Síðan er núna á teikniborðinu samkeppni fyrir áfangastað á Bolafjalli, Bolungarvík í samstarfi við Arnhildi Pálmadóttur arkitekt. Við vorum valin sem eitt af þremur teymum til að gera útfærslu af áningarstað á Bolafjall,“ útskýrir Kristján.

Enginn munur á degi og nóttu

Kristján segir að aðstæður á Svalbarða séu afar sérstakar. „Það var gerð heimildamynd hér um daginn þar sem Longyearbyen var kallaður Bipolar city (e. Geðhvarfa borgin) því þetta eru svo trylltar andstæður. Núna erum við komin inn í pólarnóttina. Þá sér maður ekki mun á miðnætti og hádegi. En 8. mars lætur sólin sjá sig í bænum aftur,“ segir hann og hlær. „Þá hittast allir og fagna sólinni þegar hún kemur hér yfir fjallið. Svo 18. apríl, þá er stax komin miðnætursól. Þetta er svo ýkt úr myrkri í birtu. Maður finnur að maður fer á annað tempó í myrkrinu, maður vill fá sér aðeins meiri ís og horfa meira á Netflix,“ segir hann og skellir upp úr.

Ísbirnir eru reglulegir gestir í bænum og eðlilegur partur af lífinu á Svalbarða. „Það var einn hérna í vor, við gátum horft á hann úr götunni okkar. En þá kemur sýslumaðurinn á þyrlu og reynir að reka hann á brott. Þessir ísbirnir eru bara svo miklir karakterar. Sumir eru búnir að læra að fara inn í híbýli manna að leita sér að æti en það gerist nokkrum sinnum á ári,“ segir Kristján Breiðfjörð Svavarsson og er hvergi banginn við nágranna sinn hvítabjörninn. /epe.