Hvað viltu verða þegar þú verður stór?

Silja Jóhannesdóttir skrifar

Silja Jóhannesdóttir

Laugardaginn 25. maí síðastliðinn útskrifaði Framhaldsskólinn á Húsavík (FSH) 17 stúdenta. FSH á skilið mikið hrós fyrir að vera skóli sem margt ungt og efnilegt fólk velur til að klára sitt framhaldsskólanám. Í dag er það nefnilega oft svo að fjölskyldan flytur með 16 ára unglingnum ef hann getur ekki sótt sér það nám sem hann vill í nánasta umhverfi. Þetta er ekki eins og í ”gamla daga” þegar börn og unglingar fluttu með foreldrum sínum vegna lífsákvarðana.  

Til að byggð og nærumhverfi þrífist þarf fjölbreytileika hvað varðar fólk, menntun og atvinnu. Það að ungt fólk geti sótt sér framhaldsskólamenntun hér á Húsavík er nauðsynleg lífæð fyrir samfélag til að þróast. FSH hefur einnig lagt sig fram við að fjölga námsbrautum og er í góðu samstarfi við Fjarmenntaskólann núna að bjóða upp á heilsunuddnáms sem kemur til móts við þarfir fjölbreytts atvinnulífs.

Sá möguleiki sem svo opnast hjá FSH með möguleikanum að taka stúdentspróf að loknu starfsnámi, mætir líka þörf nútímans um að geta breytt um starfsvettvang. Í dag er óþarfi að velja starfsgrein fyrir lífstíð, það er hægt að breyta til seinna meir og starfsfólk FSH skilur slíka framþróun.

Skólinn býður einnig upp á tækniáfanga og hefur keypt tæki til að sinna honum. Líka er í boði útivist til að þjálfa nemendur að lifa með náttúrunni og síðast en ekki síst býður skólinn upp á hafragraut til að efla hug og hjörtu nemenda en góð næring er þörf þegar setið er löngum stundum og lært.

Í heimsókn í skólann um daginn sá ég þann kraft sem þar er inni og viljann til að halda áfram að þróast til að geta boðið upp á gott og fjölbreytt nám á okkar fallega svæði. Þannig byggjum við undir unga fólkið okkar og gefum því betri innsýn inn í hvernig það vill halda áfram í námi og starfi. Skólinn tengir fólkið enn betur við svæðið og á sama tíma gefur þeim innsýn varðandi hvaða framtíð þau vilja byggja sér og hvetur til að sækja kunnáttu annað þó að vonir standi til að sem flestir snúi aftur í heimabyggð.

Til hamingju allir útskriftarnemendur FSH, framtíðin er ykkar og FSH hefur eflaust undirbúið ykkur vel fyrir næstu skref. Áfram þið!

Silja Jóhannesdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi Norðurþingi