Í dag fimmtudaginn 9. maí hefst vegleg afmælishátíð Hvalasafnsins á Húsavík og stendur til og með 11. maí.

Blaðamaður Víkurblaðsins leit við á safninu í vikunni og hitti þar fyrir Evu Björk Káradóttur, framkvæmdastjóra og Heiðar Hrafn Halldórsson, verkefnastjóra. Þau voru á kafi í undirbúningi fyrir hátíðina þegar blaðamann bar að garði en lofuðu því að mikið yrði um dýrðir. Hvalasafnið varð 20 ára á síðasta ári og þá stóð til að hátíðin yrði haldin en vegna mannabreytinga í starfsliði safnsins var hátíðinni frestað um eitt ár.

Afmælishátíðin hefst í dag klukkan 18 með Hvalaráðstefnunni sem nú er haldin í fimmta sinn. Eva segir ráðstefnuna vera hugsaða til að deila og miðla upplýsingum um nýjustu rannsóknir á sjávarspendýrum í Skjálfandaflóa og víðar. Hún leggur áherslu á að allir séu velkomnir og bendir á að viðburðinn sé kjörið tækfæri fyrir heimafólk að fræðast um lífríkið í flóanum sem svo margir byggja afkomu sína á. Þá er ráðstefnan mikilvægur vettvangur fyrir starfsfólk hvalaskoðunarfyrirtækja, leiðsögufólk og aðra sem áhuga hafa á málefninu að koma saman og deila reynslu sinni og fræðast um nýjustu niðurstöður rannsókna.

Fyrirlesarar ráðstefnunnar í ár koma víða að. Fulltrúar Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Húsavík, þau Adam Smith, Charla Basran og Dr. Marianne Rasmussen verða með sitt erindið hvert áður en haldið verður í klukkustundar matarhlé. Eftir hlé verða einnig þrír fyrirlestrar, fyrst frá Katie Pavid (Náttúruminjasafnið í London) og Callum Mair (Iris films), Richard Sabin (Náttúruminjasafnið í London) og bandaríski hvalasérfræðingurinn Erich Hoyt.

Á morgun föstudag klukkan 18 verður formleg opnun á afmælissýningu Hvalasafnsins. Eva Björk segir að sýningin sé tileinkuð merkilegri sögu safnsins þar sem stiklað er á stóru í gegnum tíðina í máli og myndum. Heiðar Hrafn bætir við að hann vonist eftir að sjá sem flesta, bæði ferðamenn og heimafólk, að allir séu velkomnir  en boðið verði upp á léttar veitingar.

Aðspurð um hvort heimafólk sé duglegt að heimsækja safnið segir Eva Björk að áhugi heimamanna sé alltaf að aukast og nefnir sem dæmi að yfir 200 manns hafi heimsótt Hvalasafnið um páskana í tengslum við skemmtilegan spurningaleik sem safnið auglýsti sérstaklega. „Það var líka góð aðsókn um jólin og Hvalaskólinn sem við erum með skilar sér í því að krakkar koma reglulega á safni og biðja um að fá að skoða,“ segir hún og leggur áherslu á að það sér eitt af markmiðum safnsins að vera í góðum tengslum við fólkið í nærsamfélaginu.

Á laugardaginn 11. maí frá kl. 14-16 verður ókeypis aðgangur í safnið en þá verður líka boðið upp á veglega afmælistertu og kaffi fyrir gesti.