Skjálfandi listahátíð verður haldin í Samkomuhúsinu á Húsavík föstudaginn 17. maí.

Þetta er í 8. sinn sem Skjálfandi listahátíð er haldin í Norðurþingi. Hátíðin er samstarfsverkefni fjölmargra einstaklinga, hópa, byggðarlaga og listgreina þar sem heima- og aðkomufólk leiða saman hesta sína með einlægri og fallegri listahátíð í Samkomuhúsinu á Húsavík.

Yfir 50 listamenn taka þátt að þessu sinni en fjölbreytnin verður í fyrirrúmi. Tónlist, myndlist, gjörningar og vídeólist er meðal þess sem gestum verður boðið upp á.

Víkurblaðið í samstarfi við Skjálfanda listahátíð kynnir þátttakendur en nú er komið að fastagestum hátíðarinnar: Það er hljómsveitin INFLÚÚNT en þetta er í þriðja sinn sem hljómsveitin kemur fram á Skjálfanda.

INFLÚÚNT er sjálfskipuð húsvísk hljómsveit fimm meðlima á aldrinu 13-16 ára. Þessi ferska og skemmtilega hljómsveit leikur sín eigin lög í bland við fallegar ábreiður af þekktari lögum.

Hljómsveitina skipa:
Elísa Þóreyjardóttir
Sandra Björk Kristjánsdóttir
Magnús Máni Sigurgeirsson
Andri Már Sigursveinsson
Inga Lilja Snorradóttir