Jólatréð á myndinni er hvorki meira né minna en 75 ára gamalt. Blaðamaður Víkurblaðsins leit við á heimili Bjarna Aðalgeirssonar og Þórhöllu Sigurðardóttur á dögunum til að bera þetta ágæta tré augum. Þó það sé komið til ára sinna lítur það út eins og nýtt og sómir sér vel í skrifstofuglugganum hjá fyrrum útgerðarmanninum og bæjarstjóranum, Bjarna.

„Þetta var nýtt á fyrstu jólunum mínum fyrir um 75 árum síðan, mamma og pabbi voru með þetta tré á sínu heimili alveg þar til við Þórhalla fórum sjálf að búa, þá fengum við að hafa það með okkur. Þetta tré var áður fyrr alltaf skreytt með lifandi kertum en nú notum við rafmagnsljósin,“ útskýrir Bjarni og aðspurður segir hann að jólahaldið hafi breyst talsvert frá því hann var sjálfur barn. „Það er allt orðið meira umleikis í dag miðað við það sem áður var.“