Kaelon Fox gengur í raðir Völsungs

Kaelon Fox hefur skrifað undir fyrir Völsung.

Fréttin birtist fyrst á vef Völsungs


Kaelon Fox hefur komist að samkomulagi við knattspyrnudeild Völsungs og mun því leika með meistaraflokki karla næsta sumar í 2. deild. Fox sem er 23 ára er fæddur í Atlanta og uppalinn í Louisville. Hann er fjölhæfur leikmaður en hefur undanfarið spilað sem miðvörður, hægri bakvörður og djúpur miðjumaður. Að hans sögn hefur hann spilað allar stöður á vellinum, meira að segja gripið í markmannshanskana.

Fox hefur leikið fyrir háskólann í Kentucky og háskólann í Saint Francis. Einnig hefur hann leikið fyrir Portland Timbers, Reading United AC og Mississippi Brilla á sínum ferli. Næsta stopp verður Völsungur og þegar hann er spurður út í ástæðuna á því afhverju hann valdi Völsung segir hann. „Ég hef alltaf viljað spila fótbolta á erlendri grundu og fannst mér Völsungur því vera fullkominn áfangastaður til að láta þann draum rætast og um leið að hefja knattspyrnuferill minn fyrir alvöru.“

Þetta verður í fyrsta skipti sem Fox kemur til Íslands en hann hefur ferðast víða um Evrópu. „Ég veit lítið um landið. Ég hef séð myndir og heyrt skemmtilega hluti um landið. Ég er spenntur fyrir því að hitta liðið og þá sem eru í kringum það. Ég er spenntur fyrir því að kynnast íslenskri menningu. Ég kann ekki tungumálið en vona að ég nái að læra einhverja hluti þann tíma sem ég verð á Íslandi,“ segir Fox.

Markmið Völsungs fyrir sumarið er að byggja ofan á það góða starf sem hefur verið unnið undanfarin tvö ár. Fox verður góð viðbót í flottan Völsungshóp. „Væntingar mínar fyrir tímabilinu eru mjög háar því ég er með mikið keppnisskap. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að hjálpa klúbbnum að tryggja sér sæti í 1. deild. Ég mun einnig leggja mitt af mörkum til að hjálpa liðsfélögum mínum að ná eins langt og mögulegt er. Ég hef verið að æfa í Bandaríkjunum í nokkurn tíma og er orðinn gríðarlega spenntur að byrja undirbúningstímabilið með Völsungi,“ segir Fox en hann er væntanlegur til landsins í byrjun apríl.

Að lokum var Fox spurður út í skemmtilega staðreynd um sjálfan. Sagðist hann hafa mikinn áhuga á að læra að verða góður kokkur. Hann er tilbúinn að læra af hverjum þeim sem vill kenna honum íslenska matarmenningu og um leið tungumálið.