Könnunarsafnið opnar sýningu um konur í landkönnun

Loïsà Vernieres, Sarah Brown og Anna-Lena Winkler höfundar sýningarinnar. Mynd: Sam Finley.

Sumarsýning Könnunarsafnsins á Húsavík opnar í dag, en hún ber nafnið Óttalausar og fjallar um konur í landkönnun, frá 17. öld fram til dagsins í dag. Sýningin segir sögur sex kvenna sem unnið hafa afrek á sviði landkönnunar og vísinda, auk þess sem 50 konur til viðbótar eru á myndum í sýningunni.

Bessie Coleman, fyrsta þeldökka flugkonan

„Könnunarsagan er mikið til saga karla, skrifuð af körlum. Því er sérstaklega ánægjulegt að þrjár ungar konur hafi hannað þessa metnaðarfullu sýningu um 56 brautryðjendur sem vert er að segja frá“, segir Örlygur Hnefill Örlygsson safnstjóri Könnunarsafnsins. Hann segir sýninguna þá mikilvægustu sem safnið hefur sett upp til þessa.

Höfundar sýningarinnar eru Loïsà Vernieres frá Frakklandi, Sarah Brown frá Bandaríkjunum og Anna-Lena Winkler frá Þýskalandi, en þær hafa allar heillast af landkönnun og landkönnuðum frá unga aldri.

Sýningin opnar formlega kl. 15.30 og er öllum gestum hátíðarsamkomu stéttarfélagsins Framsýnar boðið á opnunina og gildir rauði miði stéttarfélaganna sem aðgöngumiði. Sýningin verður opin til 20. október n.k.