Kostnaður nemur tæpum 25 milljónum króna

Vegna framkvæmda í tengslum við upptöku Búðarár

Unnið við að stífla stokkinn við Árból.

Upptaka Búðarár í neðanverðu Árgili var til umræðu á 28. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings sem fram fór 2. apríl sl.

Í fundargerð kemur fram að upptaka árinnar þar sem henni er veitt inn í Suðurfjöru sé liður í stærra verkefni sem snýr m.a. að uppbyggingu iðnaðarsvæðis á suðurfyllingu, yfirborðsfrágangi Stangarbakka, suðurfjöru og suðurhluta hafnarsvæðis ásamt innviðauppbyggingu veitumannvirkja Orkuveitu Húsavíkur ohf.
Framkvæmda- og þjónustufulltrúi ásamt framkvæmdastjóra Orkuveitu Húsavíkur ohf., kynntu nefndinni stöðu verkefnisins.

Víkurblaðið spurðist fyrir um málið en Kristinn Jóhann Lund, varaformaður ráðsins varð fyrir svörum. Hann sagði meðal annars að fyrir nokkrum árum hafi verið ráðist í talsverðar framkvæmdir í tengslum við fráveitumál hér á Húsavík. „Markmiðið er að koma allri fráveitu frá bænum til sjávar á einum stað, út fyrir Bökugarð þar sem umhverfisáhrifa vegna hennar gætir ekki,“ útskýrir hann og bætir við að ekki hafi verið unnt að klára að fullu hluta framkvæmdanna.

„Vegna rennslis Búðarár um þann stokk sem hún hefur runnið um eins lengi og elstu menn muna, var ekki mögulegt að klára að fullu þær framkvæmdir sem snúa að veitulögnum iðnaðar- og ofanvatns af hafnarsvæði og suðurfyllingu og því nauðsynlegt að gera ráðstafanir varðandi farveg árinnar svo hægt væri að ljúka þeim. Að auki var ljóst að vegna uppbyggingar iðnaðarsvæðis á suðurfyllingu, þyrfti að færa farveg árinnar þar sem rennsli hennar var um fyrirhugað byggingarland á fyllingunni.“

Staða framkvæmdanna í dag

Samkvæmt upplýsingum frá Kristni hefur Búðaránni verið veitt inn í suðurfjöruna í fyrirfram mótaðan farveg sem fóðraður er með jökulleir og grjóti auk þess að komið var fyrir ræsi undir veginn um suðurfjöruna þar sem áin á greiða leið undir veginn til sjávar.

„Forsteyptur var „tappi“ í stokk árinnar sem sniðinn var að stokknum til þess að hægt væri að beina ánni í nýjan farveg, en vegna lélegs ástands veitustokksins og þess vatnsþunga sem um ræðir, var að auki ráðist í töluverða mannvirkjagerð vegna styrkinga við hann þar sem ánni er hleypt upp og inn í fjöruna.

Steyptur var brunnur í kringum tvo loka sem eru í „tappanum“ svo hægt verði að komast í þá og stýra rennsli árinnar inn á veitulögn yfirborðsvatns af hafnarsvæðinu.

Ráðast þurfti í breytingar á legu eldri veitulagna sem liggja samhliða stokknum og þvera útrásarrör árinnar inn í suðurfjöruna,“ útskýrir hann.

Einnig hafa farið fram jarðvegsskipti í veginum um suðurfjöru, suður fyrir ræsi árinnar undir veginn, en samhliða þeirri framkvæmd voru settar niður veitulagnir fyrir yfirborðsvatn ásamt niðurföllum og rafstrengjum vegna fyrirhugaðrar götulýsingar.

Kostnaður við þessar framkvæmdir nemur rétt tæpum 25 milljónum króna að sögn Kristins

Hvað á eftir að gera?

„Þær framkvæmdir helstar sem eru fyrirhugaðar og tengjast þessu svæði, eru m.a. landfylling undir byggingarlóðir á suðurfyllingu, gatnagerð og stofnlagnir veitukerfa á fyllingunni, yfirborðsfrágangur gatna og göngustíga á suðurfyllingu, yfirborðsfrágangur í kringum nýjan árfarveg Búðarár í suðurfjöru, tenging stangarbakkastígs af bakkanum og niður í suðurfjöru ásamt frágangi grjótvarna við suðurfyllingu til suðurs og vesturs,“ segir Kristinn og tekur fram að fæst þessara verkefna hafi verið tímasett í framkvæmdaáætlun og ekki verið kostnaðarmetin að því marki að hægt sé að byggja á, enn sem komið er.

„Starfsmenn Orkuveitu Húsavíkur vinna nú hörðum höndum að því að koma niður þeim veitulögnum sem ekki var hægt að ganga frá á sínum tíma og tengja þær,“ segir Kristinn að lokum.